Meðferðarheimilið að Staðarfelli í Dölum

15. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 18:01:47 (353)


[18:01]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint fsp. frá 2. þm. Vesturl., hvort heilbrrh. hyggist tryggja áframhaldandi rekstur meðferðarheimilis SÁÁ á Staðarfelli. Í fyrsta lagi hygg ég að engum blandist um það hugur að árangur þeirrar starfsemi hafi verið umtalsverður og óumdeildur. Ég get svarað því að ég hef áhuga á að tryggja áframhald þessa reksturs, í ljósi þess sem ég sagði áðan. Í öðru lagi liggur fyrir að hvort

tveggja, fjárbeiðni Samtaka áhugafólks um áfengisvandamálið svo og fjárveiting í fjárlagafrv., er óskipt. Með öðrum orðum: ekki liggur fyrir á þessari stundu til hvaða einstakra verkefna SÁÁ hyggst verja þeim fjármunum sem þau hafa undir höndum, sem eru annars vegar framlög á fjárlögum og hins vegar seld þjónusta og framlög, auk fjáraflana meðal annarra af rekstri spilakassa Rauða krossins og samstarfsaðila, þar eru um 28 millj. kr.
    Í þessu ljósi liggur fyrir að samkvæmt núv. fjárlagafrv. er heildarframlag til SÁÁ á fjárlögum óbreytt frá yfirstandandi fjárlögum, þó þannig að sértekjur hækka en framlag lækkar að sama skapi, en brúttóniðurstaða er breytt.
    Ég vil hins vegar láta það koma hér skýrt fram að á næstu vikum mun ég vitaskuld ræða við forsvarsmenn SÁÁ um framhald málsins, skiptingu fjárins og með hvaða hætti félagið hyggst ráðstafa því fjármagni sem það hefur til gagnsemi fyrir þann rekstur sem félagið hefur með höndum. Þá vegur auðvitað rekstur Staðarfells þungt í því sambandi.
    Það er rétt sem kom fram hjá fyrirspyrjanda að Staðarfell er ekki í eigu samtakanna heldur er það í eigu menntmrn. Ég vil láta koma fram að ég er áhugamaður um að beita mér fyrir því að þessi eign geti orðið eign samtakanna, þannig að ekki þurfi að velkjast í vafa um þann þátt málsins. Í bláendann vil ég segja að samtök áhugafólks um áfengisvandamál hafa sannað tilverurétt sinn með árangursríkri starfsemi í gegnum árin. Ég tel að í þeirri stefnumörkun sem ég hef beitt mér fyrir í áfengismeðferðarmálum gegni Staðarfell hér eftir sem hingað til veigamiklu hlutverki.