Lánsfjárlög 1994

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 14:05:02 (368)


[14:05]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. að hugmyndin er að greina ekki frá því í frv. hvernig skiptin eru á milli erlendra og innlendra lántaka. Ekki eingöngu af þeim ástæðum sem hann nefndi, þótt það séu aðalástæðurnar, heldur ekki síður vegna þess að á litlum markaði eins og íslenska lánsfjármarkaðnum held ég að það sé hyggilegt fyrir ríkisvaldið að geta stjórnað innlendum og erlendum lántökum dálítið til þess að reyna að ná sem allra bestum kjörum og lækka vexti. Við ætlum, eins og kom fram í ræðu minni, að reyna að einhverju marki að selja bréf innan lands á erlendu gengi. En þetta allt saman breytir því ekki að það mun að sjálfsögðu í lok hvers árs verða hægt að greina á milli innlendra og erlendra skulda. Sú greining fer eftir því hver á kröfur á hendur Íslendingum þannig að t.d. þau bréf sem seld verða innan lands í erlendri mynt mynda ekki erlendar skuldir heldur eru skuldir við innlenda aðila. Vandamálið verður hins vegar það að eftir því sem þessi markaður opnast meira þá verður erfiðara að greina á milli innlendra og erlendra skulda. Ég vil einnig bæta því við, virðulegi forseti, að ég hygg að það geti verið skynsamlegt fyrir ýmsa aðila, t.d. lífeyrissjóði, að leita eftir fjárfestingum erlendis. Í ágætri grein eftir Guðmund Guðmundsson í Fjármálatíðindum benti hann á að íslenski markaðurinn þyldi engan veginn fjárfestingar lífeyrissjóðanna þegar kemur nokkuð fram á næstu öld eða a.m.k. fyrir 2020 og það er ekki langt í það ártal eins og menn vita.