Lánsfjárlög 1994

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 14:33:26 (373)


[14:33]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta er allt rétt hjá hæstv. fjmrh. svo langt sem það nær. Ég er líka með þjóðhagsáætlunina hérna, opna á bls. 40 og 41, en það sem hæstv. fjmrh. gleymir er það sama og hæstv. forsrh. að þeir sátu líka við völd sjö mánuði á árinu 1991, tólf mánuði á árinu 1992 og þeir ætla sér að verða í ríkisstjórn á árinu 1994. ( Fjmrh.: Og 1995.) Það skulum við vona að verði ekki a.m.k. langt fram á það ár, hæstv. fjmrh. Vonandi verður kosið snemma á því ári og snaggaraleg stjórnarskipti fara svo fram í kjölfarið. Það hef ég satt best að segja tröllatrú á að gerist. Og hinu breytir hæstv. fjmrh. ekki, enda reyndi hann ekki að mótmæla því að hlutfallið var þetta sem ég nefndi á árunum 1988 til og með 1990. Við getum svo sem rætt um það eins og fleiri hafa gert hvernig við eigum að skipta upp á milli okkar árinu 1991, þeir sem báru ábyrgð á fyrri ríkisstjórn og hinni. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ætlar þó væntanlega ekki að láta það gleymast að hún sat við völd í sjö mánuði á árinu 1991 og ætlar sér væntanlega að bera pólitíska ábyrgð á þeim tíma. Og það verður fjandakornið ekki hægt að þvo ábyrgðina af árinu 1992 alveg af hæstv. ríkisstjórn, nema þeir hafi meira og minna verið meðvitundarlausir á þessu tímabili og þeir ætli bara á spjöldum sögunnar að gangast við einu ári í valdatíma sínum, þ.e. 1993, af því að það eina ár komi sæmilega út í samanburði. (Gripið fram í.) Hver var við völd 1991 og 1992 og hver verður við völd 1994? spyr ég nú. Það væri fróðlegt að heyra í hæstv. fjmrh. um það. Getur hann komið, eða hæstv. forsrh., og haldið sömu ræðuna hér að ári ef þeir sitja svo lengi? Ég óttast ekki, ég held að það stefni í það að erlendar skuldir aukist á nýjan leik á árinu 1994 þannig að þetta verður skammgóður vermir hjá hæstv. ríkisstjórn.