Framtíð starfsemi Bandaríkjahers á Íslandi

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 15:26:38 (383)


[15:26]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að leggja áherslu á að Bandaríkjamönnum hefur þegar verið kynnt óánægja íslenskra stjórnvalda með þann seinagang sem verið hefur í viðræðunum um framtíð varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Stefnan í utanríkismálum er eitt stærsta mál hverrar þjóðar og öryggismál Íslands er stórmál sem við öll berum fyrir brjósti. Öll viljum við að sem minnst óvissa ríki um þau mál og það á einnig við varðandi breytingar á starfsemi varnarliðsins. Hugsanlegar afleiðingar breytinga á starfsemi varnarliðsins fyrir íbúa á Suðurnesjum, fyrir starfsfólk sem óttast að atvinnuöryggi sínu sé ógnað er annað mál og ekki síður mikilvægt að eyða óvissu í þeim efnum. Að eyða óvissu varðandi þessi mál

er því sameiginlegt áhugamál okkar allra.
    Mitt mat er að utandagskrárumræða á þessum tímapunkti sé ekki til þess fallin að eyða þessari óvissu sem ég geri hér að umtalsefni. Staða þessa máls hefur verið rædd í utanrmn. Það er ljóst að á þessum tíma er ekki hægt að veita svör við spurningunum sem vaknað hafa við umfjöllun fjölmiðla. Þess vegna eykur umræða sem þessi fremur ótta en eyðir honum. Sá sem stofnar til þessarar umræðu veit fyrir fram að svör fást ekki í dag. Það er verið að nýta sér fjölmiðlaumfjöllun þar sem staðhæfingar hafa verið settar fram. Umfjöllun um slíkar staðhæfingar kveikir enn frekari vangaveltur um að ef ekki þetta þá trúlega hitt og það kom einmitt berlega fram hér áðan í máli málshefjanda, Ólafs Ragnars Grímssonar.
    Þegar stjórnvöld eiga í viðræðum við erlenda aðila er æskilegt að menn séu ekki með innbyrðis krytur en standi sameiginlega vörð um hagsmuni lands og þjóðar. Það er vafasamt að nota slíka stöðu í pólitískum tilgangi og hæpið að reyna að skora punkta í fjölmiðlaumræðu um mál sem snerta svo mikilvæga hagsmuni okkar. Ég tek undir orð formanns utanrmn. að við munum fá upplýsingar um þessi mál um leið og þær upplýsingar liggja fyrir.