Framtíð starfsemi Bandaríkjahers á Íslandi

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 15:29:18 (384)

[15:29]
     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Það vekur nokkra umhugsun hvernig þessi umræða er hafin í dag og raunar líka hversu ólíkar eru raddir alþýðubandalagsmanna í umræðunni. Einn spurði hvort það ætti að stefna að því að Keflavíkurstöðin yrði virkilega lítil flotastöð. Það er góð spurning. Hún er lítil flotastöð í dag og hefur verið það alla tíð. En ég velti því fyrir mér hvort við erum í raun og veru að ræða öryggis- og varnarmál út frá skrifum sem jafnvel eru getsakir í fjölmiðlum þegar við vitum jafnvel að stefna okkar í málinu hefur verið mótuð fyrir opnum tjöldum, hefur verið rædd í þinginu. Hún liggur fyrir alls staðar þar sem hún þurfti að liggja fyrir. Og í henni liggur skýrt að hverju við stefnum í viðræðunum. Það hefur þegar komið fram.
    Það sem mér finnst hins vegar skipta máli er að það er ekkert nýmæli að hér séu varnarmál eða öryggismál ofarlega á baugi og mikið rædd. Þau hafa verið ofarlega á baugi núna um árabil. Samstarf okkar við Bandaríkin um varnarhagsmuni okkar hafa verið til endurmats aftur og aftur og fyrir nokkrum vikum hófu Bandaríkjamenn sjálfir endurmat niður í kjölinn sem þeir kalla ,,bottoms up`` endurskoðun á varnarþörf sinni, á þörf fyrir varnarbúnað, bæði heima og erlendis. Það er alveg ljóst að það endurmat mun hafa áhrif á endanlegt starf eða umsvif í stöðinni í Keflavík, mun endanlega hafa áhrif á hversu mikil umsvif verða í samstarfi okkar og Bandaríkjamanna. Við vitum að miklar breytingar hafa orðið í alþjóðamálum og þær hafa áhrif á áhættu hér á norðurslóðum. Hins vegar hefur áhættan vaxið annars staðar og það kallar á breyttar áherslur í varnarviðbúnaði, ekki aðeins okkar heldur allra Vesturlanda. Það hefur kallað fram það sem talað er um sem meiri hreyfanleika varnarsveita, meiri viðbragðsflýti, minni viðveru. Ég tel skipta miklu máli að við hættum að ræða getsakir og efasemdir, umræðunni og viðræðunum verði flýtt sem kostur er, án þess að fljótfærni nái að ríkja, svo að þeir aðilar sem hlut eiga að máli fái réttar upplýsingar en standi ekki berskjaldaðir fyrir getsökum.