Framtíð starfsemi Bandaríkjahers á Íslandi

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 15:38:39 (388)


[15:38]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er dálítið erfitt að verða við óskum hv. þm. Steingríms Hermannssonar um að birta nú þegar gagntillögurnar ef tillögurnar sjálfar, sem lagðar hafa verið fram, eru bundnar trúnaði. Þessi umræða hefur upplýst eftirfarandi:
    Það er að sjálfsögðu svo að það hefur fullt samráð verið haft við utanrmn. og Alþingi Íslendinga um mótun stefnunnar í þessum málum sem eru varnar- og öryggismálin. Það er trúnaðarstig að svo stöddu um þær tillögur sem samningsaðili okkar hefur lagt fyrir okkur og gagntillögur okkar. Þegar spurt er hvenær unnt er að létta þeim trúnaði af þá eru mín svör þessi: Það var orðið við óskum samstarfsaðilans um þennan trúnað í ljósi þess að þeir lögðu höfuðáherslu á að hraða þessum samningaviðræðum og eins og ég sagði stefndu að því að ljúka þeim í byrjun september. Sjálfsagt hefði ekki verið orðið við því ef við hefðum þá vitað að þessar viðræður drægjust á langinn svo lengi sem raun ber vitni.
    Hvenær er unnt að aflétta trúnaðinum? Ég hef þegar skýrt frá því að við höfum lýst óánægju okkar með formlegum hætti við sendimann Bandaríkjastjórnar og sagt honum fullum fetum að þau tímamörk séu þröng að því er varðar það að framlengja þetta trúnaðarstig. Með öðrum orðum, að því kemur, það er búið að koma þeim skilaboðum til bandarískra stjórnvalda. Við bíðum eftir svörum frá þeim og ég get fullyrt það að þess er skammt að bíða að þessar tillögur verði lagðar fram til umræður í utanrmn.

    Virðulegi forseti. Að því er varðar þau orð sem hér hafa fallið um fréttaflutning Morgunblaðsins þá er ekkert um það að segja annað en þetta: Fréttaflutningur Morgunblaðsins er að sjálfsögðu á ábyrgð ritstjórnar blaðsins og það er ekki mitt hlutverk að ritskoða það. (Forseti hringir.) Ég hef hins vegar að gefnu tilefni birt yfirlýsingu þar sem þau efnisatriði sem voru beinlínis röng og skaðlegt var að menn legðu trúnað á voru leiðrétt. Ég ætla ekki hins vegar að fara út í neinar efnisumræður frekar. ( ÓRG: Hin efnisatriðin voru rétt.)