Lánsfjárlög 1994

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 16:24:42 (394)


[16:24]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Einhvern veginn finnst mér að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn skilji ekki enn þá alvöru málsins. Hæstv. ráðherra sagði: Raunvextirnir eru munurinn á verðbólgu og vöxtum. Fyrirtækin og einstaklingarnir hafa alveg í hendi og þeir sjá hvað þeir borga í vexti. Einhver mæld verðbólga lyftir ekki tekjum viðkomandi aðila. Hæstv. ráðherra veit mætavel að launþegar fá ekki hækkun á sínum launum. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra veit væntanlega líka að þorri fyrirtækja fá óbreytt verð fyrir vöru sína og áður og sum meira að segja að glíma við verðlækkanir ( Forseti: Tíminn er búinn.) og fyrir þau eru þessir nafnvextir raunvextir og ekkert annað.