Lánsfjárlög 1994

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 16:31:20 (399)


[16:31]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er vel að hálfrar aldar gamall hæstv. fjmrh. þykist nú fara að lesa samþykktir Framsfl. aftur í tímann og óska ég honum til hamingju með það lestrarefni sem hann hefur valið sér. Jafnframt vil ég geta þess að mér þykir vænt um að sú breyting hefur orðið að hann telur nú að stundum sé krókurinn betri en keldan og verður það mikil breyting á ferðalagi miðað við það sem verið hefur því að hann hefur verið svo fundvís að sigla beint í hverja kelduna eftir aðra að undanförnu að aðdáun vekur.
    Ég vil upplýsa hann um það að hengingar hafa gefist illa og eru aflagðar í flestum löndum, jafnvel þó að markmiðið sé að taka menn af hvort sem er þingmenn eða aðra og tel að hann þurfi að leita annarra ráða hyggist hann fara að nota krókinn í annarlegri merkingu. En ég vil minna hæstv. fjmrh. á það að hér úr þessum stól talaði gjarnan fyrr á tímum ágætur þingmaður úr liði alþýðubandalagsmanna, hv. þm. Geir Gunnarsson. Hann sagði gjarnan að sér fyndist stundum að málshátturinn ,,lofa skal mey að morgni og mann þegar öll er hans ævi`` ætti við dálítið útfærður varðandi fjárlögin og lánsfjárlög, þ.e. það ætti að lofa fjárlögin þegar fjárlagaárið væri búið, ekki áður, og sama væri með lánsfjárlögin. Og nú vænti ég þess að hæstv. fjmrh. lesi ríkisreikninginn og samþykkt fjárlög og meti hversu mjög beri að lofa.