Lánsfjárlög 1994

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 16:33:24 (400)


[16:33]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þm. hefur verið viðstaddur umræðuna og fylgst með því sem hér fór fram, enda mátti heyra það af efni máls hans. Það er hárrétt hjá hv. þm. að ég er kominn á þann aldur að ég fer að velja mér öðruvísi lestrarefni en ég gerði fyrr á ævinni og þar kemur auðvitað til greina að líta á það sem þeir framsóknarmenn hafa skrifað.
    Þetta hafa orðið fróðlegar umræður hér um krókinn og kelduna og það er alveg rétt hjá hv. þm. að krókinn má nota til þess að hengja. En ég vænti þess að þegar menn skoða reynsluna af ríkisfjármálastefnu þessarar ríkisstjórnar og handleiðslu minni í fjmrn., að hv. þm. taki ekki þátt í því að hengja bakara fyrir smið.