Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 16:34:39 (401)

[16:34]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lánsfjárlögum fyrir árið 1993. Þetta er 76. mál þingsins á þskj. 79. Þetta frv. er ekki langt en það er þeim mun dýrara því að í 1. gr. er gert ráð fyrir að á fimmta milljarð kr. bætist við í heimild til lántöku. í 2. gr. laganna er um að ræða hækkun á lántökuheimildum. Annars vegar er það vegna atvinnutryggingardeildar Byggðasjóðs ef ég man rétt og hins vegar vegna lántöku Spalar sem er tilkomin vegna rannsóknar á botni Hvalfjarðar í tengslum við fyrirhuguð jarðgöng undir Hvalfjörð.
    Heildarlántökur ríkissjóðs voru áætlaðar 15,4 milljarðar kr. í fjárlögum 1993. Við afgreiðslu lánsfjárlaga 1993 á Alþingi í janúar var heimildin hækkuð í 15 milljarða 970 millj. kr. í tengslum við breytingar á tekjuhlið fjárlaga og aukinnar lánahreyfingar ríkissjóðs. Samkvæmt endurskoðaðri lánsfjáráætlun stefnir heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs á yfirstandandi ári í að verða um 20,2 milljarðar kr.
    Í greinargerð með frv. er frekari grein gerð fyrir frv. Þetta frv. er auðvitað flutt til þess að fylla út í það sem áður hefur verið fjallað um hér á hinu háa Alþingi, en það er nauðsyn að taka lán vegna þess að halli ríkissjóðs hefur reynst meiri en ætlað var í upphafi. Skýringar á því hafa þegar komið fram í umræðum hér á hinu háa Alþingi.
    Í frv. er lántökuheimildinni ekki skipt í innlenda og erlenda heimild sérstaklega og er það í samræmi við þá stefnumörkun sem fyrr var rædd á þessum fundi þegar rætt var um lánsfjárlögin fyrir 1994. Þá á ég þar fyrst og fremst við hinn opna fjármagnsmarkað.
    Ég tel ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fara frekari orðum um þetta frv. því að flest efnisatriðin sem koma fram í greinargerð hafa þegar verið rædd þegar rætt var um frv. til laga um breytingu á lánsfjárlögum fyrir árið 1994. Ég vil enn fremur taka fram að fyrir þinginu liggur nú frv. til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár og með því að skoða það frv. með þessu og fjárlögum yfirstandandi árs geta menn lesið sér til um það hvernig þróun ríkisfjármálanna hefur verið frá upphafi árs til þessa dags.
    Virðulegi forseti. Að þessari framsöguræðu lokinni legg ég til að málið verði sent til efh.- og viðskn. sem væntanlega mun senda málið áfram til fjárln. samkvæmt 1. og 2. mgr. 25. gr. þingskapa.