Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 16:43:13 (405)


[16:43]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Ég er algjörlega sammála hv. þm. að það sem íslenska þjóðfélagið þarf mest á að halda er að auka útflutningsframleiðsluna. Og þess vegna hefur hæstv. ríkisstjórn stefnt að því með öllum tiltækum vopnum að styrkja samkeppnisstöðu útflutningsgreinanna.
    En við skulum hafa eitt í huga að á sama hátt og þegar við setjum af stað atvinnurekstur í þessu landi og beitum margföldunaráhrifum, segjum t.d. að þegar við komum upp stóriðju megi margfalda með tveimur eða þremur, þá gerist það nákvæmlega sama þegar saman dregur að það eru margfölduð áhrif í því líka. Þetta liggur í eðli hlutanna en réttlætir hins vegar ekki að við aukum sífellt ríkissjóðshallann og beitum ríkissjóði þegar illa árar. Ef við gerðum það þá endar slíkt að sjálfsögðu illa.