Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 16:52:46 (408)


[16:52]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Það var eingöngu vegna fyrirspurnar um Spöl hf., þá kom það fram hjá hv. síðasta ræðumanni hver var aðdragandi þess máls. Ég tel að ríkisstjórnin hafi í sjálfu sér ekki tekið neina endanlega ákvörðun í þessu máli. Spölur er einkafyrirtæki og það fyrirtæki sem hefur lýst því yfir að það hyggist standa fyrir framkvæmdum án þess að ríkið sé aðili að þeim. Þessar 50 millj. kr. þurfti hins vegar til þess að gera nauðsynlegar rannsóknir. Ef ekki hefði verið farið fram á ákveðna lántöku eins og hér er gert ráð fyrir, og þá þannig jafnvel að hægt sé að greiða þetta til baka í tímans rás, þá hefði þetta að sjálfsögðu þótt eðlilegt verkefni Vegagerðar ríkisins.
    Ég tel með öðrum orðum að það sé ekki mál ríkisvaldsins hvort af þessari framkvæmd verður. Ég vil hins vegar segja að mér sýnist að þetta geti verið mál sem horfir til góðs, komi á eðlilegum og góðum tíma fyrir okkur. Það byggist hins vegar alveg á því hvernig til tekst með fjármögnun og endanlega samninga við ríkisvaldið. Ég skal láta það koma fram hér að ég er nokkuð íhaldssamur á það að gerðir séu sérstakir samningar við það fyrirtæki sem sér um verkið og tel að útreikningar sýni að svo þurfi ekki. Það kann að þurfa einhverja tilhliðrun en mér sýnist, eins og málið liggur fyrir, að hér sé um arðsama framkvæmd að ræða.
    Það sem skiptir Vegagerð ríkisins máli er að ef ekki verður gripið til þessarar framkvæmdar þá þarf að taka veginn, nánast allan veginn í Hvalfirði upp, moka honum upp á pall og setja alveg nýtt lag, bæði neðra lagið og slitlagið. Að því leytinu til má því segja að hugsanlega spari ríkið fjármuni.
    Það sem hins vegar verður erfitt, og ég held að það hafi kannski verið það sem hv. þm. átti við, er að þessi framkvæmd mun kosta verulega fjármuni og ef þeirra fjármuna er leitað á íslenskum lánsfjármarkaði umfram erlendan þá hefur það auðvitað áhrif á vexti með sama hætti og lánsfjárþörf ríkisins gerir.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fjalla frekar um þetta mál en get að ýmsu leyti tekið undir annað sem hv. þm. sagði. Það er ætíð spurning hvenær á að kalla til nefndir þingsins og ræða við þær um einstakar ákvarðanir. Það sem gerðist í kjarasamningum í sumar var með þeim hætti að það þurfti að taka ákvörðun um þá hluti strax. Það var gert af hálfu bráðabirgðalöggjafans. Það hefur þegar komið fram í frv. og verið rætt hér. Ég fagna því hins vegar að hv. þm., sem nú er formaður efh.- og viðskn., sé tilbúinn til þess að eiga gott samstarf við fjmrh. um þessi mál og vil gjarnan fá tækifæri til þess að ræða við hann um það hvernig hentugast er að samstarf ráðuneytis og nefndarinnar geti orðið í framtíðinni.