Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:02:13 (412)


[17:02]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ef ég hef skilið spurninguna rétt þá er verið að spyrja um það hvað mér sýnist um að fyrirtæki, sem er fyrirtæki reyndar í eign opinberra fyrirtækja, að nokkru leyti, taki lán án beinnar ríkisábyrgðar, hvernig mér litist á að það taki erlend lán eða innlend. Ég get því miður ekki svarað þessari fyrirspurn. Ég tel það reyndar ekki í mínum verkahring að gera það. Hins vegar munu fjmrn. og samgrn. koma að þessu verki, fyrir utan það að hafa gert fyrirliggjandi samning og reyndar nýjan samning, þegar og ef um það verður beðið að um einhvers konar ábyrgð verði að ræða eða þá tilhliðrun í sköttum. En á meðan svo er ekki þá tel ég það ekki í mínum verkahring að svara þessari fyrirspurn frekar en að svara fyrirspurn þess efnis hvort eitthvert annað fyrirtæki sem starfar hér á landi eigi eða geti tekið erlend lán.