Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:04:23 (414)


[17:04]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér er það gleðiefni að fá að svara þessu, því þegar spurt er svona þá tel ég það fyllilega réttlætanlegt að taka erlend lán ef um er að ræða framkvæmd sem stendur undir sér. Og ég tel að ef vel tekst til og ákveðið verður að fara þessa leið sem þarna er verið að tala um að hér sé um að ræða nokkurs konar einkavæðingu á sviði samgangna á landi. Þetta hefur verið gert í Noregi í stórum stíl upp á síðkastið og með þessu hefur verið mælt sérstaklega af hálfu ýmissa opinberra aðila á Norðurlöndum. Þetta hefur lengi tíðkast annars staðar og í öðrum löndum, að einkafyrirtæki byggi vegi eða byggi brýr eða grafi göng og taki síðan gjald af vegfarendum. Sé það ljóst af hagkvæmnisskýrslum að þetta geti borgað sig og sé þjóðþrifafyrirtæki sem standi undir sér, þá sé ég ekkert að því að það séu tekin erlend lán til þessarar starfsemi eins og annarrar slíkrar starfsemi. Ég vona að þetta sé skýrara svar en áðan.