Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:05:37 (415)


[17:05]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hæstv. fjmrh. að það er vissulega afar mikilvægt, m.a. við uppbyggingu atvinnulífsins í landinu, að samgöngur séu sem bestar. Umræður um svokölluð jarðgöng undir Hvalfjörð hafa verið á þeim nótum að það hefur verið talinn álitlegur kostur að bæta svo samgöngur um þessa fjölförnu leið með jarðgöngum að það gæti orðið til þess að efla þá atvinnu sem m.a. byggir á því að flytja varning og afurðir um þetta svæði.
    Það var m.a. bent á það að ef ekki verður ráðist í þessar framkvæmdir við Hvalfjarðargöng þá er alveg ljóst, eins og kom fram í umræðunni, að það þarf að byggja upp veginn fyrir Hvalfjörð, ekki aðeins að endurbyggja veginn sjálfan heldur brú í Hvalfjarðarbotni. Allt kostar þetta töluverða fjármuni, þannig að á þetta þarf að líta þegar verið er að meta hagkvæmni þessara framkvæmda.
    En vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið er kannski ástæða til að velta því upp hvort ekki hefði e.t.v. verið eðlilegra að ráðast í þessar rannsóknir, sem nú er talið nauðsynlegt að ráðast í, áður en gengið var til þess að gera samninga, m.a. af hálfu ríkisins, við þetta fyrirtæki, þetta hlutafélag sem hefur verið stofnað um framkvæmdir og rekstur á jarðgöngum.
    Mér finnst að það væri full ástæða til þess að velta þeirri spurningu upp, e.t.v. til þess að leggja áherslu á það í framtíðinni að rannsóknir vegna slíkrar mannvirkjagerðar eru afar mikilvægar. Okkur Íslendingum hættir allt of oft til að ákveða fyrst framkvæmdirnar og fara síðan að rannsaka og gera áætlanir sem kannski leiða síðan til annarrar niðurstöðu en menn höfðu í upphafi gert ráð fyrir.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess samt sem áður að þrátt fyrir þessar umræður, sem eru út af fyrir sig nauðsynlegar, fái þetta frv. og þessi heimild sem frv. gerir ráð fyrir greiðan gang í gegnum þingið, þannig að ekki verði horfið frá því að hefja þær rannsóknir sem talið er nauðsynlegt að gera í Hvalfirðinum svo þessi merkilega framkvæmd geti farið af stað sem allra fyrst og eflt þar með atvinnulífið í landinu, bæði á byggingartíma og svo ekki síður þegar og ef samgöngurnar verða bættar um Hvalfjörðinn með þeim hætti sem Spölur hefur hugsað sér að gera.