Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:18:27 (421)


[17:18]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. gaf hér mjög merkilega yfirlýsingu áðan sem er nauðsynlegt að fylgja eftir. Hann sagði að það væru nú í gangi viðræður á milli samgrn. og fjmrn. um þau vandamál sem kæmu upp vegna þess að það ætti að fara að leggja virðisaukaskatt á íslenska ferðaþjónustu. Þessi ákvörðun var því miður tekin á síðasta Alþingi en nú skilst mér að það séu einhverjar viðræður í gangi um þau vandamál sem munu koma upp. Gerðu ráðherrarnir sér ekki grein fyrir því þegar þeir voru að setja þessi lög að það mundu koma upp vandamál? Eru þeir fyrst að gera sér grein fyrir þessu núna? Eina leiðin til þess að bregðast við þessum vandamálum er að sjálfsögðu að fella skattinn niður. Það getur ekki verið neitt annað sem mennirnir eru að tala um. Eða á að fara að koma með einhver ný undanþáguákvæði, einhvern nýjan skattabastarð til þess að mæta þarna málum? Mér þykir afar ólíklegt að íslensk ferðaþjónusta muni sætta sig við neitt annað en að fella þennan skatt niður, enda er það þjóðhagslega hagkvæmt. Það veit hæstv. fjmrh. en ég get vel unnað honum þess að viðurkenna það ekki fyrr en á landsfundinum um helgina. Hann þarf ekki endilega að gera það hérna í dag. Það er aðalatriðið að hann geri það fljótlega.