Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:21:56 (423)


[17:21]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er langt síðan ég gerði mér grein fyrir því að þessi breyting á svokölluðum matarskatti mun trúlega valda því að verðlag á innlendum matvælum mun hækka en ekki lækka. Hins vegar mun verðlag á innfluttum matvælum lækka verulega, það er rétt. Þetta ættu ekki að vera nein ný sannindi fyrir hæstv. ríkisstjórn. En að nú eigi að fara að grípa til einhverra aðgerða vegna ástands sem var alveg ljóst þegar þessar ákvarðanir voru teknar kemur mér mjög á óvart. Ég hélt að þetta væri eitthvað sem ríkisstjórnin ætlaði hreinlega að láta ganga yfir þótt óskynsamlegt væri. Hún er vön því. En mér finnst nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. upplýsi þetta betur því að hann sagði jafnframt að hann gerði ráð fyrir að íslensk ferðaþjónusta yrði ánægð með niðurstöuna. Hvað hefur hæstv. fjmrh. fyrir sér í þeim efnum þegar hann lýsir því yfir að hann vænti þess að ferðaþjónustuaðilar verði ánægðir með niðurstöðuna? Hvaða ástæðu hafa þeir til þess? Ég leyfi mér að halda því fram að þeir hafi enga ástæðu til að vænta þess að geta orðið ánægðir með niðurstöuna nema þá fjmrh. upplýsi það hér að skatturinn verði felldur niður eða þá einhverjar aðrar aðgerðir sem geti orðið til þess að lagfæra þetta mál.