Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:28:36 (426)


[17:28]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins út af einu atriði sem kom fram hjá hv. þm. Það er missskilningur að niðurfelling á tryggingagjaldi til ferðaþjónustunnar sé almenn aðgerð. Ég hugsa að hv. þm. rugli því saman við þá aðgerð sem átti sér stað í tengslum við kjarasamninga þar sem fellt var niður tryggingagjald af útflutningsgreinum það sem eftir lifði yfirstandandi árs. En aðgerðin í ferðaþjónustunni gildir frá næstu áramótum eða frá sama tíma og virðisaukaskatturinn er tekinn upp og gildir áfram og er eingöngu gerð fyrir ferðaþjónustuna sem slíka, en nær hins vegar til fleiri þátta ferðaþjónustunnar en þeirra sem nú þurfa í fyrsta sinn að greiða virðisaukaskatt. Það er nefnilega misskilningur að öll ferðaþjónustan í dag sé laus við virðisaukaskattinn. Það er einungis hluti hennar eins og ég veit að hv. þm. þekkir.