Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:33:13 (428)


[17:33]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tel að hv. 4. þm. Norðurl. v. hafi eitthvað misskilið þær fyrirætlanir sem eru á ferðinni þarna fyrir Hvalfjörð. Það hefur legið fyrir frá því að gert var samkomulag við fyrrv. ríkisstjórn um málið að það ætti að viðhalda vegi fyrir Hvalfjörð. Og það lá alveg nákvæmlega fyrir með hvaða hætti yrði staðið að því, þannig að hv. þm. hefur nú líklega vitað eitthvað um málið á sínum tíma þegar þetta samkomulag var gert. Ég held út af fyrir sig að það sé ekki neitt að óttast í því og það muni ekki valda neinum vanda. Þarna er á ferðinni kostur sem kemur í ljós mjög bráðlega hvort verður fýsilegur, hvort kostnaður við gerð ganganna sé það --- hvað eigum við að segja, hagstæður, að gjaldtaka í gegnum göngin geti keppt við það að keyra fyrir Hvalfjörð. En það hefur auðvitað aldrei staðið til að menn hættu að viðhalda og endurbæta veginn fyrir Hvalfjörð þó svo að kannski stærstu fyrirætlanir í því efni verði ekki að veruleika vegna jarðganganna.