Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:37:11 (431)


[17:37]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér er haldið uppi sérkennilegu andófi í þessu máli af hálfu hv. þm. Framsfl. og

vekur það satt að segja töluvert mikla athygli. Sem betur fer var ég í hliðarsölum og heyrði ræðu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar og get þess vegna sagt, vegna hans ræðu, að ég hef ekki haft uppi nokkrar blekkingar. Ég skil ekki hvernig hann getur haldið uppi slíkum málflutningi og haldið því fram að um blekkingar hafi verið að ræða í mínum málflutningi.
    Ég vil hins vegar að það komi alveg skýrt fram að ef jarðgöng undir Hvalfjörð verða að veruleika, þá liggur það alveg fyrir að ekki þarf að byggja upp veginn fyrir Hvalfjörð með sama hætti og ef þetta væri meginumferðaræð. Vegna þess að ef svo væri, þá þyrfti að byggja upp allan veginn og það þyrfti að byggja nýja brú í Hvalfjarðarbotni. Þess vegna held ég að það sé m.a. sem jarðgöng geti orðið hagkvæmari kostur vegna þess að þarna sparast framkvæmd við dýra vegagerð fyrir Hvalfjörðinn. En það hefur aldrei hvarflað að mér að við stæðum ekki að því að halda við vegi fyrir Hvalfjörðinn, að þeim mannvirkjum og að þeirri byggð sem í Hvalfirðinum er. Það hefur aldrei hvarflað að mér og ef hv. þm. gerir ráð fyrir því að fara eilíflega fyrir Hvalfjörðinn, þá mun ég fyrir mína parta stuðla að því að hann geti það áfram hvort sem göngin verða eða ekki. En þessi afstaða sem hefur komið hér fram frá hv. þm. Framsfl. gagnvart jarðgöngum undir Hvalfjörð vekur vissulega athygli.