Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:40:59 (433)


[17:40]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki hugsað mér að veita fólki sérstaka leiðsögn um það hvaða vegi það eigi að velja þegar það vill komast á milli landshluta. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að það hefur alltaf verið gert ráð fyrir því að rekstri Akraborgar yrði hætt ef jarðgöng yrðu sett undir Hvalfjörðinn þannig að ég verð að hryggjat hv. þm. með því að það er ekki gert ráð fyrir því að hann komist með Akraborginni.
    Hins vegar, vegna fyrri ræðu hans, er ástæða til þess að taka það fram að þessi mikilvæga mannvirkjagerð á sviði samgöngubóta sem jarðgöng undir Hvalfjörð eru hlýtur að koma til umræðu í samgn. þingsins með einum eða öðrum hætti vegna þess að hún tengist að sjálfsögðu vegakerfinu sem Vegasjóður kostar að öllu leyti. Við hljótum að sjálfsögðu að fá þetta til umfjöllunar og m.a. fyrirhugaðar endurbætur á veginum fyrir Hvalfjörðinn. Við fáum því gott tækifæri til þess, ekki síst hv. þm. Stefán Guðmundsson sem situr í samgn. þingsins, að fjalla um þessar samgöngubætur sem eru fyrirhugaðar undir Hvalfjörðinn. Ég held að við hér á hinu háa Alþingi fáum gott tækifæri til þess að skoða þetta mál frá ýmsum hliðum þegar rannsóknir liggja fyrir og þegar það liggur fyrir hvort þarna er um hagkvæman kost að ræða sem á auðvitað eftir að leggja fyrir.