Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:45:22 (435)


[17:45]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að vekja hér upp efnislegar umræður um jarðgöng undir Hvalfjörð, það var ekki mín hugmynd. Ég ætlaði hins vegar að vekja upp umræðu um það hvort það væri eðlilega og réttilega staðið að þessu máli samkvæmt lögum og ég átti nú von á því að a.m.k. þeir aðilar sem sitja í fjárln. tækju því heldur vel.
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef miklar efasemdir um það að hér sé eðlilega staðið að málum samkvæmt vegalögum og samkvæmt venjum sem hafa skapast í kringum vegamál. Ég held að það sé rétt að leita álits Ríkisendurskoðunar í því sambandi. Ég taldi á sl. ári að það væri óeðlilega staðið að því að ríkisstjórnin væri farin að úthluta sérstöku fjármagni til vegagerðar og skipta því á einhverjum kvöldfundum tveggja ráðherra með einhverjum hugsanlegum símtölum að næturlagi við einstaka þingmenn. Þetta eru venjur sem ekki hafa verið áður og ég tel að við eigum að vera sammála um það að á Alþingi séu virtar leikreglur og það sé staðið að þessum málum samkvæmt lögum á eðlilegan hátt. Þar má líka vera til skoðunar sá samningur sem hér hefur verið nefndur sem gerður mun hafa verið í tíð fyrri ríkisstjórnar. Ég ætla ekki að leggja neitt mat á það. Ef það er álit að það hafi eitthvað verið óeðlilega staðið að honum eins og mér heyrðist á hv. þm. Sturlu Böðvarssyni, hv. 1. þm. Vesturl., þá er sjálfsagt að draga það fram því að auðvitað skal hann tekinn til athugunar í þessu sambandi.
    En hins vegar er það alveg fráleitt þegar menn koma síðan hér upp og lýsa því yfir að hér sé komin upp mikil andstaða um þetta mál, alveg eins og hv. 1. þm. Vesturl. sé það eitthvað sérstaklega í mun að safna andstæðingum við málið. Ég hefði haldið að hann mundi nú fremur leggja sig fram um það að safna stuðningsmönnum. Hann lýsir því meira að segja yfir að þingmaður sem kom hér upp, hv. þm. Stefán Guðmundsson, og lýsti stuðningi við málið --- sem ég gerði ekki og hef ekki gert enn þá, ég vil bíða eftir því að málið fái frekari umfjöllun, mér fannst þetta nú kannski ótímabær yfirlýsing hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni --- sé sérstakur andstæðingur þessa máls. Þetta er alveg dæmalaus málflutningur. Ég vænti þess að það verði haldið áfram á þeirri braut að reyna að skapa hér fastar venjur hvernig staðið er að málum að því er varðar vegamál og það verði tekið til athugunar í fjárln. eða í efh.- og viðskn. með aðstoð Ríkisendurskoðunar, hvort hér sé og hafi eðlilega verið staðið að máli og hvort ekki sé eðlilegra að mál sem þessi hljóti umfjöllun og undirbúning á Alþingi áður en í þau er ráðist.