Fjáraukalög 1992

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:54:14 (440)

[17:54]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni frv. sem var flutt á síðasta þingi en umræðum lauk ekki. Það skal tekið fram að nál. var skilað hinn 6. maí 1993 en því miður tókst ekki að ljúka málinu vegna tímaskorts og vegna þess að þingi var slitið nokkuð snögglega.
    Undir nál. rituðu allir hv. þm. í fjárln. en minni hlutinn með fyrirvara. Nú er þetta frv. flutt aftur og hafa verið gerðar tvær breytingar á því. Annars vegar á yfirfærslu heimilda vegna óseldra aflaheimilda Hafrannsóknastofnunar. Hins vegar er leiðrétt yfirfærsla stofnkostnaðar hjá Þjóðleikhúsinu. Þetta kemur fram á bls. 7 í inngangi athugasemda við lagafrv. Að öðru leyti er frv. óbreytt og mun ég, virðulegi forseti, þess vegna ekki lesa þá ræðu sem ég hef verið nestaður með úr fjmrn. því ég sé að hún er sama ræðan og ég flutti í vor og tel óþarfa að lesa hana aftur yfir hér á hinu háa Alþingi.
    Að svo mæltu, virðulegi forseti, óska ég eftir því að þetta mál fái þá meðferð sem um getur í 25. gr. þingskapalaga.