Fjáraukalög 1992

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 18:06:08 (443)


[18:06]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir það að gefa þá yfirlýsingu hér alveg skýrt að leikreglur sem ráðuneytið hefur sett sér verði áfram virtar þrátt fyrir þetta sem ég tel að hafi verið viss vanefnd á nýliðnu sumri og reyndar þessu ári og vil t.d. grípa niður í það fskj. sem hann vitnaði til með frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1993 þar sem gerð er grein fyrir því að meira en helmingurinn af þessum margumrædda milljarði eru yfirfærslur frá fjárlögum 1992 og innan við hálfur milljarður sem er raunverulega nýjar heimildir. Í viðbót við það sem hæstv. ráðherra sagði í lok síns andsvars um að það lægi alveg skýrt fyrir að fyrirheit um að það sem ekki væri búið að vinna fyrir eða eyða af þessum milljarði, sem þarna var lofað, yrði yfirfært til næsta árs þá langar mig að spyrja: Má kannski gera ráð fyrir því, hæstv. ráðherra, að það verði síðan hluti af þeim milljarði eða þeirri viðbótarfjármögnun sem hæstv. ríkisstjórn hefur lofað í tengslum við gerð kjarasamninga að auka atvinnu á næsta ári? Verður það kannski svo að hluti af því sem lofað var í sumar verði síðan aftur lofað með nýjum lista á næsta ári, ég veit ekki hvað miklu af þessu, kannski helmingi?