Fjáraukalög 1991

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 18:11:14 (446)

[18:10]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1991 en það frv. er að finna á þskj. 71 og er 68. mál þingsins.
    Það er frá því að segja að þetta frv. er endurflutt í annað sinn. Á síðasta þingi skilaði hv. fjárln. nefndarálitum sem birtust á þingskjölum, annars vegar nál. minni hlutans sem var dagsett 7. maí og hins vegar nál. meiri hlutans sem var dagsett 8. maí 1993. Meiri hluti nefndarinnar taldi þá að fullnægjandi skýringar hefðu fengist við öllum efnisatriðum frv. og mælti með samþykkt þess en minni hlutinn gerði ýmsar athugasemdir sem eru reyndar þekktar úr deilum sem hafa komið upp á Alþingi á undanförnum árum um það hvernig færa skuli. Í lok nál. segir minni hlutinn að hann kjósi að sitja hjá við afgreiðslu frv. og til viðbótar að meiri hluti nefndarinnar hljóti að taka ábyrgð á misvísandi vinnubrögðum sínum. Er þetta

síðan rökstutt fyrr í nál. eins og þar segir.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að hafa mörg orð um þetta frv., það hefur verið gert áður. Það er vitað um deilumálin sem liggja fyrir hv. þingi og tengjast um leið ríkisreikningi fyrir árið 1991. Ég tel þó ástæðu til þess að leiðrétta villu á bls. 8 í þessu frv. þar sem gleymst hefur að leiðrétta orðin ,,síðasta árs`` í 1991 vegna þess að málið er endurflutt öðru sinni og þá segir þannig, með leyfi forseta:
    ,,Þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um efnahagsþróun 1991 sýna umtalsverð frávik frá forsendum fjárlaga.`` Nú eru orðin tvö ár síðan. Ég legg mikla áherslu á að hv. nefnd ljúki afgreiðslu þessa frv. sem fyrst. Ég vil taka það fram að ríkisreikningsnefnd mun á næstunni væntanlega ljúka niðurstöðum sínum og gerist það þá vonandi með þeim hætti að þingheimur ásamt Ríkisendurskoðun, sem er stofnun Alþingis, og fjmrh. geti vel við unað þá niðurstöðu sem þar fæst. En mér er auðvitað ljóst að hér er um umdeild atriði að ræða, sem kannski eru enn umdeildari þegar litið er á ríkisreikning fyrir 1991 sem er síðar á dagskrá þessa fundar.
    Að svo mæltu óska ég eftir því, virðulegur forseti, að þetta mál verði sent til fjárln. samkvæmt ákvæðum í 25. gr. þingskapa.