Fjáraukalög 1991

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 18:19:39 (449)


[18:19]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er enn á ný verið að ræða um mjög gamalt frv. sem kom fram á þinginu í fyrra og hittiðfyrra. Þar var uppi viss ágreiningur og ætti að sjálfsögu að vera löngu búið að afgreiða þetta

þar sem hér er verið að ræða um árið 1991 og nánast verið að ganga frá lokauppgjöri til samræmis við ríkisreikning. Ég ætla heldur ekki að fara að endurtaka allt það sem ég sagði um þetta í fyrra. Það er talsverður ágreiningur um það hvernig skuli fara með a.m.k. tvö atriði sem ekki er samhljóða skoðun margra alþingismanna og einnig ágreiningur milli Ríkisendurskoðunar og fjmrn. þar sem talað er um að færa til gjalda framlag til Framkvæmdasjóðs Íslands sem ekki er samþykkt fyrr en með lánsfjárlögum fyrir árið 1992. Þetta er ágreiningur sem mikið var ræddur hér á þinginu í fyrra og ég hef grun um að hann muni koma aftur upp á borðið og ekki hvað síst í sambandi við ríkisreikning fyrir árið sem einnig verður ræddur hér á eftir.
    Eins og ég segi ætla ég ekki að fara mjög náið út í þessa umræðu einu sinni enn. Ég geri ráð fyrir að reynt verði að leysa þetta mál í fjárln. En ég vil þó endurtaka það að mér finnst það mjög ankannalegt að ekki skuli vera búið að ganga frá fjáraukalögum áður en ríkisreikningur er fram kominn og það virðist eiga að samþykkja hann þrátt fyrir að þar sé mjög mikill ágreiningur á milli fjmrn. og Ríkisendurskoðunar.