Ríkisreikningur 1991

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 18:47:58 (453)

[18:47]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Örstutt, virðulegi forseti. Í umræðum sem urðu hér um daginn um ríkislögmann var nokkuð rætt um hver staða ákveðinna stofnana væri og þá ekki síst ef kæmu niðurstöður frá þeim í formi til að mynda álitsgerðar eins og hjá ríkislögmanni. Þar var réttilega bent á að slík álitsgerð hefur ekkert meiri þýðingu heldur en álitsgerð annarra lögmanna sem starfa á frjálsum vettvangi.
    Þá var einnig rætt um Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis til að benda á að í raun og veru er þar um að ræða stofnanir sem eru stoðstofnanir og kveða ekki upp úrskurði nema það sé sérstaklega tiltekið í lögum heldur er þar um að ræða tilmæli. Og við í fjmrn. teljum t.d. að ef tilmæli koma frá umboðsmanni Alþingis þá tökum við það alvarlega og reynum að bæta úr. Ef við teljum hins vegar að hann fari ekki með mál með þeim hætti sem við teljum rétt, þá sendum við honum skrifleg svör þar sem við bendum á okkar hlið málanna. Og niðurstaðan er sem betur fer oftast sú að friður verður um hana.
    Varðandi þá skýrslu sem hv. þm. ræddi og ábendingar sem þar koma fram, þá hef ég talið að fjmrn. beri að bera þau boð sem þar koma fram, þau tilmæli sem ég tel að svo séu, til viðkomandi stofnana framkvæmdarvaldsins. Ég tel hins vegar að það sé ástæða til þess, eins og reyndar hefur komið fram margoft áður og m.a. hjá yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings, að það kunni að vera önnur aðferð betri í því sambandi. En þetta vildi ég láta koma fram þannig að það sé skýrt að ég tel að það sé verkefni fjmrn. að sjá um að þessi tilmæli, ábendingar, berist réttum aðilum þótt engan veginn sé um úrskurði að ræða.