Flutningur tónlistar og leikhúsverka í sjónvarpi

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 13:57:30 (462)


[13:57]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þm. Stefáni Guðmundssyni fyrir þá þrautseigju sem hann hefur sýnt í því að flytja þetta mál hér í þessari virðulegu stofnun og einnig segja að það er mjög ánægjulegt að heyra þau ummæli sem hér hafa fallið, m.a. um Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveit Íslands reyndar líka, m.a. frá síðasta ræðumanni.
    Hér er um að ræða mál sem hefur að sjálfsögðu verið rætt og kannað mjög ítarlega á undanförnum árum. Það hefur auðvitað fyrst og fremst rekist á eitt, það hefur kannski ekki rekist á viljaleysi eða hugmyndaleysi þeirra sem ráða ríkjum í þessum stofnunum heldur hygg ég að málið hafi fyrst og fremst rekist á peningaleysi eða öllu heldur kannski það að menn hafa ekki talið sig hafa aðstæður til að losa peninga úr rekstri stofnananna til að nota í því skyni sem hér er gerð tillaga um. Þetta er með öðrum orðum tillaga um breytingu á ráðstöfun þeirra fjármuna sem þær þrjár menningarstofnanir hafa sem hér er verið að tala um, þ.e. Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveit Íslands, að þessar stofnanir hagi sínum áherslum í fjárveitingum og sínum fjárlögum öðruvísi en nú er gert og gert hefur verið. Eða þá að menn eru hér með hugmyndir um að bæta við þá fjármuni sem þessar stofnanir hafa, þ.e. Ríkisútvarpið,

Sinfóníuhljómsveit Íslands og Þjóðleikhúsið. Ég hygg að það sé kannski einhver blanda af þessum tveimur leiðum sem menn yrðu að fara í þessu. Annars vegar að auka aðeins við þá fjármuni sem þessar þrjár stofnanir hafa og hins vegar að reyna að raða aðeins öðruvísi niður þeim peningum sem stofnanirnar eru þegar með á milli handanna. Ég tel þess vegna að það sé sjálfsagt mál --- ég heyrði nú ekki hvaða tillögu hv. flm. gerði um nefnd, en ég tel út af fyrir sig sjálfsagt mál að menntmn. fjalli um málið. En ég tel að þetta sé líka fjárlagamál og ég teldi eðlilegt að bæði fjárln. og menntmn. fengju þetta mál til meðferðar og kannski alveg sérstaklega fjárln. einmitt núna á næstunni. Vill hún koma fram með beinar tillögur eða ábendingar um það að þessar stofnanir verji sínum fjármunum öðruvísi þannig að unnt verði að stuðla að auknum flutningi verka Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í ríkissjónvarpinu?
    Nú háttar auk þess svo til, virðulegur forseti, að hér með eru ekki öll kurl komin til grafar þó svo að málið geti þegar virst nægilega flókið vegna þess að hér eru auðvitað starfandi í landinu fleiri en ein sjónvarpsstöð. Hér er rekin sjónvarpsstöð á vegum einkaaðila sem nær mjög víða um land í seinni tíð eins og menn þekkja. Þess vegna hlytu eigendur þeirrar sjónvarpsstöðvar að segja sem svo: Við viljum með einhverjum hætti koma inn í þetta mál þannig að við getum komið í gegnum okkar stöð líka listaverkum sem hér er um að ræða.
    Til viðbótar þessu bætist svo það, virðulegur forseti, og það tel ég að geri tillöguna sérstaklega tímabæra einmitt núna í upphafi þings, að nú er verið að vinna að endurskoðun útvarpslaga undir forustu hv. 5. þm. Norðurl. e., sem heiðrar okkur hér með nærveru sinni í salnum. Ég tel eðlilegt að á þessu máli yrði einnig tekið í þeirri nefnd þannig að þegar allt er lagt saman þá ætti auðvitað að vera hægt að gera sér vonir um árangur einmitt núna af því að málinu er yfirleitt vel tekið og af því að að því koma menn hverra fé stendur víða föstum fótum, m.a. í útvarpslaganefnd og í fjárln. sjálfri, að nú ekki sé minnst á hv. menntmn. og ekki gert lítið úr henni, en ég er viss um að þar verði málinu vel tekið.