Flutningur tónlistar og leikhúsverka í sjónvarpi

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 14:15:09 (467)


[14:15]
     Flm. (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil færa bestu þakkir til þeirra sem hér hafa komið upp og tekið svo jákvætt

undir þennan tillöguflutning. Ég trúi því nú satt að segja að þetta mál nái í höfn á þessu þingi. Ég held, eins og reyndar hefur komið fram hjá mörgum sem um þetta hafa rætt, að hér sé ekki um það háar kostnaðartölur að ræða ef grannt er skoðað að málið ætti þess vegna ekki að geta náð fram.
    Það er hins vegar fleira sem þarf að ræða. Mér er ljóst, þó að ég hafi ekki vikið að því í mínum upphafsorðum hér hvað varðar kostnaðinn, að þetta mun trúlega grípa inn á kjarasamninga viðkomandi aðila hvort sem það er hjá Sinfóníuhljómveit, Þjóðleikhúsi, Íslensku óperunni, Leikfélagi Akureyrar eða einhverra slíkra sem hér er meiningin að reyna að ná til. Ég veit að það mun þurfa að taka þá upp. En ég trúi því að það fólk sem að þessari listsköpun starfar hafi fullan skilning á því og vilja til þess að þau verk sem það er að flytja hverju sinni megi sem best komast til sem flestra landsmanna þannig að þeir geti notið þessarar listar.
    En það er alveg rétt eins og kom hér fram í máli hv. þm. Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar og nú undir lokin hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich að þar sem segir einmitt hér í lokasetningu tillögunnar er réttur skilningur hjá hv. þm., að það er meining flm. að þetta nái vissulega til fleiri aðila þó að hér sé fyrst og fremst lögð áhersla á Þjóðleikhús og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hér er t.d. rætt um Íslensku óperuna, Leikfélag Reykjavíkur og ýmis áhugaleikhús úti á landi og margs konar menningarstarfsemi sem þar er og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að ríkissjónvarpið geti í auknum mæli tekið upp slíkan flutning og komið honum sem best til landsmanna.
    Ég tek einnig undir það með hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni að nái þessi tillaga fram að ganga, þá muni þetta ekki síður styrkja starf Þjóðleikhússins og Sinfóníunnar. Ég er sannfærður um það að landsmenn allir munu öðlast meiri skilning á því starfi sem þarna fer fram um leið og þeir njóta þess ágæta listflutnings.
    Ég er sammála hv. þm. Ragnari Arnalds um það hvað kostnaðinn varðar. Ég veit að það er nokkur stofnkostnaður sem mun fylgja þessu á ákveðnum stöðum þar sem menn mundu setja sig niður, en ég held að þar sé ekki um óviðráðanlegar upphæðir að ræða og ég held að það sé einmitt hárrétt hjá hv. þm. að þetta er töluvert minni kostnaður heldur en á sér stað við ýmsa þáttagerð hjá fjölmiðlunum.
    Ég er sannfærður um það eftir að hafa skoðað þetta og rætt við marga, sérstaklega við leikhúsmenn, að þetta er tæknilega vel mögulegt og raunverulega ekkert vandamál sem ekki er einfalt að leysa. Hér er fyrst og fremst um ákvarðunartöku að ræða og ég treysti því að hv. menntmn. taki þetta mál vinsamlegum tökum og afgreiði það frá sér hingað til Alþingis þannig að við getum afgreitt það sem fyrst á jákvæðan hátt.