Flutningur tónlistar og leikhúsverka í sjónvarpi

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 14:20:34 (468)


[14:20]
     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég stenst ekki mátið að segja hér nokkur orð og þakka hv. 4. þm. Norðurl. v. fyrir að vekja máls á því sem þáltill. fjallar um, þ.e. málefni Sinfóníuhljómsveitarinnar og annarra menningarstofnana eins og Þjóðleikhússins. Ég held að landsmenn hafi í raun og veru ekki gert sér alveg grein fyrir því hvað við eigum góða hljómsveit sem Sinfóníuhljómsveit Íslands er.
    Nú vitum við að Ríkisútvarpið sendir út a.m.k. helming tónleika beint þegar þeir eru haldnir, en það er ekki það sama að flytja slíka tónlist í útvarpi eins og sjónvarpi ef við viljum reyna að útvíkka hlustendahópinn. Þess vegna fagna ég þessari tillögu og ég vona svo sannarlega að það verði í framtíðinni hægt að snúa sér að því að sjónvarpið taki upp eða sendi út slíka tónleika.
    Það hefur verið minnst á það hvað þetta mundi kosta og með hvaða hætti þetta gæti farið fram. Það kom fram í máli hv. 9. þm. Reykv., sem er fyrrv. menntmrh. og þekkir væntanlega eitthvað til þessara mála. En nú vitum við að það er oft þannig að sjónvarpið sendir út á sunnudagseftirmiðdögum ýmsa dagskrá sem mætti hugsa sér að nýta einmitt Sinfóníuhljómsveitina til og væri jafnvel heppilegur tími.
    Það er ekki víst að allir landsmenn hafi gert sér grein fyrir því að orðspor Sinfóníuhljómsveitarinnar er komið langt út fyrir landsteinana. Sinfóníuhljómsveitin er nýlega komin úr tónleikaferð til München, þangað sem henni var boðið. Sinfóníuhjómsveit Íslands hefur þurft að neita slíkum boðum áður vegna fjárskorts. Þessi tónleikaferð tókst frábærlega vel, hún fékk frábæra dóma en það var alls ekki hægt að segja um allar aðrar sinfóníuhjómsveitir annarra stórborga sem voru þarna á undan eða á svipuðum tíma og Sinfóníuhljómveit Íslands svo að við getum verið stolt af okkar hljómsveit.
    Mig langar líka til að nefna það að gefnir hafa verið út nokkrir geisladiskar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur leikið inn á og hafa fengið mjög góða dóma hjá virtum tónlistargagnrýnendum erlendis. Þetta finnst mér nauðsynlegt að komi hér inn í umræðuna til upplýsinga og fáist fest í þingtíðindum.
    En ég vil aðeins endurtaka þakkir mínar til hv. 4. þm. Norðurl. v. fyrir að hafa einu sinni enn lagt þetta mál fram og ég vona að það fái þann framgang að það beri einhvern árangur.