Meðferð opinberra mála

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 14:24:49 (469)

[14:24]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér ásamt öðrum þingmönnum Alþb. frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Frv. gerir ráð fyrir því í mjög stuttu máli að ríkissaksóknari verði skipaður til fjögurra ára í senn og sama manninn megi aðeins skipa tvisvar samfellt í þetta starf og hið sama gildi um embætti vararíkissaksóknara.
    Það er kannski rétt að byrja á því að taka það fram að við lítum svo á að hér sé um að ræða hluta af víðtækari tillöguflutningi sem snertir stjórnkerfið. Á dagskrá þessa fundar er frv. til laga um yfirstjórn menningarstofnana og á dagskrá þessa fundar er líka frv. til laga um breytingu á lögum um Hæstarétt og við lítum svo á að hér sé um að ræða tillöguflutning sem hefur þann tilgang að koma á dagskrá umræðum um stjórnkerfið hér yfirleitt.
    Þetta frv. felur í sér býsna róttæka breytingartillögu eins og ég hef hér rakið. Við erum þeirrar skoðunar að það sé fráleitt að æviráða mann sem hefur jafnmikið vald og ríkissaksóknari hefur. Það var vissulega mikil framför þegar ákæruvaldið var flutt frá pólitískum ráðherra yfir til ríkissaksóknara, en þá láðist að tryggja um leið að ríkissaksóknarinn byggi við sama aðhald og stjórnmálamennirnir, þ.e. að hann yrði aðeins ráðinn til takmarkaðs tíma í senn. Í greinargerðinni segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Það er óframkvæmanlegt fyrir nokkurn mann að gegna þannig starfi ríkissaksóknara að alltaf og ævinlega sé hafið yfir gagnrýni. Þeim mun brýnna er þá að ráðningin sé aðeins til takmarkaðs tíma en ekki til ótakmarkaðs tíma eins og nú háttar til. Hætta er á því að hvers konar klíkuskapur og geðþóttaviðhorf ráði gerðum manna sem sitja of lengi í starfi. Það er háskalegt, ekki síst þegar um er að ræða einstaklinga sem einir gegna starfi eins og því embætti sem hér um ræðir.``
    Nú er það svo að umræður um embætti ríkissaksóknara voru miklu meiri fyrr á öldinni en þær hafa verið allra síðustu áratugina og menn kunna kannski að draga þá ályktun af því að það ríki almennt meiri sátt um þetta embætti en var fyrir 60 árum eða svo. Ég hygg að það megi segja að það ríki að sumu leyti meiri sátt um þetta embætti en var fyrir 60 árum eða svo, en þá voru deilurnar kannski fyrst og fremst vegna þess að saksóknarinn var pólitískur aðili, hann var dómsmrh. sjálfur. Eftir að ákveðið var að ráða í þetta starf embættismann með þeim hætti sem gert var, þá hefur aðeins kyrrst í kringum embættið, en engu að síður heyrast af og til mjög alvarlegar gagnrýnisraddir um vinnubrögð embættisins af ýmsu tagi sem auðvitað er ekki nærri alltaf ástæða til að taka fullt mark á, en eru þó með þeim hætti að við sem hér erum hljótum að leggja við hlustirnar þegar þessar raddir heyrast.
    Nú er það svo með þetta frv. sem hér er flutt, þar sem gert er ráð fyrir tímatakmörkun á embættisráðningu ríkissaksóknara, að það á sér mjög langan aðdraganda þegar grannt er skoðað vegna þess að þegar menn voru að fjalla hér um embætti ríkissaksóknara og ákæruvaldið á sínum tíma, þá ræddu menn ýmsa möguleika af því tagi sem hér er um að ræða.
    Gunnar Thoroddsen flutti sem alþingismaður nokkrum sinnum frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, um sjálfstæðan ríkissaksóknara, þannig að ákæruvaldið yrði tekið úr höndum dómsmrh. Hann sagði m.a. í ræðu er hann flutti um þetta mál árið 1943, með leyfi forseta, á þessa leið:
    ,,Þess vegna verður einnig að koma í veg fyrir að sá ráðherra, sem kynni að veita þetta embætti, gæti valið í það eftir geðþótta flokksbróður og fylgismann því að þá gæti svo farið að þessi lög næðu ekki tilgangi sínum. Ráðherrann gæti eftir sem áður haft öll ráð yfir ákæruvaldinu þegar hann hefði skipað einhvern þægan þjón sinn til þessa starfs. Það er því óhjákvæmilegt, ef þessi löggjöf á að verða að einhverjum notum, að leggja hömlur á veitingavald ráðherra.``
    Þegar Gunnar Thoroddsen flutti frv. sitt gerði hann ráð fyrir því að hömlurnar væru í því fólgnar að Hæstiréttur ákvæði hvaða tillögur dómsmrh. gerði um ríkissaksóknara þannig að veitingavald dómsmrh. að því er þetta embætti varðar var beinlínis takmarkað í frv. og Hæstarétti ætlað að fjalla um málið. Það ákvæði var svo fellt út úr frv. þegar það varð að lokum að lögum, mér liggur við að segja mörgum árum ef ekki áratugum seinna. En þarna strax eru menn þeirrar skoðunar að það sé óhjákvæmilegt að takmarka veitingavald ráðherra á einhvern hátt þegar embætti ríkissaksóknara er veitt. Hér er valin sú leið að takmarka það þannig að embætti sé veitt til takmarkaðs tíma en Gunnar Thoroddsen lagði til að Hæstiréttur fjallaði um þá umsækjendur sem væru til staðar vegna embættis ríkissaksóknara.
    Fjöldamargir fleiri aðilar hafa fjallað um þetta viðkvæma og mjög mikilvæga embætti með hliðstæðum hætti. Það er t.d. gert í grein í Úlfljóti, 3. tbl. í október 1955, í greininni Um ákæruvaldið eftir Bjarna Benediktsson. Þar segir hann í lok greinarinnar, þar sem hann fjallar almennt um þetta mál, með leyfi forseta:
    ,,Veruleg hætta er hins vegar á að ekki mundu þær umbætur fylgja breytingunni [yfir í það að ráða embættismann] er ýmsir vilja ætla. Vandinn og vafaatriðin haldast þó að ákvörðunarvaldið væri tekið af ráðherra. Enginn skyldi ætla að tortryggni og deilur mundu ekki öðru hvoru verða um ákvarðanir opinbers

ákæranda þótt hann væri sjálfstæður embættismaður. Hann mundi hins vegar eiga erfiðara með að verja sig en ráðherra og örðugra yrði að skipta um mann í stöðu hans en ráðherra sem í starfi sínu hefur meira aðhald og raunverulegri ábyrgð en flestir aðrir.``
    Hér tel ég að sé í raun og veru einnig tekið undir þau sjónarmið að þetta mikilvæga embætti, embætti ríkissaksóknara, þurfi sérstakt aðhald umfram í raun og veru flest ef ekki öll önnur embætti sem um er að ræða í réttarkerfi landsmanna.
    Ég tel að það sé einnig mjög athyglisvert í þessu sambandi að lesa greinar sem Þórður Björnsson, lengi ríkissaksóknari, birti um þetta mál. Meðal annars birti hann þann 1. júlí 1986 á 25 ára afmæli ríkissaksóknaraembættisins eftir 13 ára setu í embættinu ítarlega grein um málið í Morgunblaðinu sem er afar fróðleg um þau sjónarmið sem eiga að vera á bak við þetta embætti. Og í Úlfljóti í apríl 1959 birtir Þórður Björnsson, þá fulltrúi sakadómara, grein um málið undir fyrirsögninni ,,Um opinberan ákæranda`` og hann segir í þessari grein, með leyfi forseta:
    ,,Á hinn bóginn verður því vart neitað að möguleiki væri á því að löng embættistíð opinbers ákæranda gæti orðið óæskileg. Það mætti hugsa sér að hann með árunum gerðist t.d. einhver ofsatrúarmaður eða ofstækismaður í einhverri annarri mynd.`` --- Hann útskýrir það reyndar ekki nánar hvað það væri. --- ,,Einnig mætti hugsa sér að hann á langri embættisævi ,,forpokaðist`` þannig að hann hætti að fylgjast nægilega með lífi og lifnaðarháttum landsmanna og breytingum á hugmyndum þeirra um rétt og rangt, um siðgæði og svívirðu. Þetta þyrfti heldur alls ekki að vera í ríkum mæli og mundi einnig helst vera í svo smávægilegum stíl að ekki væri talin nægileg ástæða eða grundvöllur fyrir því að veita honum lausn frá embætti enda mundi heimild til slíks jafnan vera þröngur stakkur sniðinn. Hér gæti því löng embættistíð opinbers ákæranda orðið óæskileg.
    Þessi möguleiki sem nánast er fræðilegur getur þó engan veginn ráðið úrslitum á þann veg að hafna beri skipan opinbers ákæranda af þessum ástæðum einum.
    Bent hefur verið á að þar eð pólitískur ráðherra mundi skipa opinberan ákæranda og hafa eftirlit með honum væri hætta á að ákærandinn yrði ósjálfstæður og háður ráðherranum.
    Viðurkenna verður að þessu má halda fram en hér mun þó um of mikið úr gert. Þess ber að gæta að opinber ákærandi mundi án efa njóta sömu lögkjara og hæstaréttardómarar í því skyni að hann yrði sem sjálfstæðastur og óháðastur í starfi sínu. Því þyrfti hann ekki að óttast frávikningu en hana mundu dómstólarnir meta endanlega en ekki hinn pólitíski ráðherra.
    Hins vegar verður því ekki neitað að möguleiki væri á því að pólitískur ráðherra sem hefði alveg óskorað vald til skipunar opinbers ákæranda innan takmarka hinna almennu embættisskilyrða misbeitti þessu valdi sínu og t.d. skipaði pólitískan skjólstæðing sinn í embættið. Þetta hafði Gunnar Thoroddsen einmitt í huga þegar hann flutti frv. sitt á Alþingi árið 1934 ,, --- en þá flutti Gunnar frv. sitt fyrst --- `` því að í því frv. var ákveðið að ráðherra skipaði hinn opinbera ákæranda ,,eftir tillögum Hæstaréttar``. Þingnefnd sem um málið fjallaði lagðist gegn þessu og var það síðan fellt niður úr frv.``
    Hér hef ég, virðulegi forseti, vitnað í nokkra mjög mikilvæga höfunda í þessu máli sem skrifað hafa um lögfræði og sérstaklega um hlutverk ríkissaksóknara, þ.e. í grein eftir Þórð Björnsson sem gegndi þessu starfi í 13 ár, í grein eftir Bjarna Benediktsson, prófessor og dómsmrh., og í ræðu eftir Gunnar Thoroddsen sem starfaði sem prófessor við Háskóla Íslands einnig og flutti frv. um þetta mál nokkrum sinnum.
    Loks liggur fyrir, án þess að ég fari nánar yfir það, mjög fróðleg grein um þetta mál í Úlfljóti, 1. tbl. 1962, eftir Valdimar Stefánsson sem gegndi, eins og kunnugt er, embætti saksóknara ríkisins, sá fyrsti sem gegndi því embætti utan þeirra sem voru beinlínis dómsmálaráðherrar og sinntu þessu starfi.
    Af þessu tel ég að það megi sjá það að hér er hreyft máli sem á sér mjög langan aðdraganda og ætti að gera verið mjög víðtæk samstaða um. Nú verð ég hins vegar að játa það, virðulegi forseti, að ég tek eftir því að það er kannski ekki beint brennandi áhugi með þjóðinni á einstökum atriðum máls af þessu tagi, þó veit ég það ekki. Ég hygg að allir þeir sem af einhverjum ástæðum hafa átt skipti við embætti ríkissaksóknara hafi velt því fyrir sér hvort það sé rétt að hafa þá skipan á því embætti sem nú er. Ég er sannfærður um það að allir þeir sem til þekkja hljóta að hafa velt því fyrir sér hvort ekki væri rétt að takmarka með einhverjum hætti veitingu þessa embættis. Þá koma auðvitað til greina ýmsir möguleikar. Einn er sá að embættið sé veitt til fjögurra ára í senn. Einn er sá að dómnefnd fjalli um hæfi mannsins. Einn er sá að Hæstiréttur fjalli um hæfi mannsins. Einn er sá að Alþingi fjalli um málið eins og gerð er tillaga um í öðru frv.
    Í raun og veru eru þetta allt möguleikar sem ber að skoða og koma út af fyrir sig allir til greina. Ég segi fyrir mitt leyti og ég hygg að ég tali fyrir hönd okkar allra flm., við erum opin fyrir hvaða tillögu sem er í þessu efni en við teljum að núverandi skipan á embætti þessa ákæruvalds ríkisins sé óeðlileg af því að hvorki er fjallað sérstaklega um hæfi hans af dómnefnd, né heldur er hann skipaður til takmarkaðs tíma.
    Virðulegi forseti. Hér hafa stundum komið inn fyrirspurnir í þinginu um kærumál m.a. frá embætti ríkissaksóknara. Það hafa verið lagðar fram fyrirspurnir með beiðni um skrifleg svör um það hvernig tekið hafi verið á ýmsum málum. Ég hef tekið eftir því að þeir sem hafa borið þær fyrirspurnir fram hafa stundum undrast nokkuð að svörin frá embætti ríkissaksóknara væru óljós og ekki nægilega glögg. Ég vil einnig í þessu sambandi nefna það að ég tel að núv. dómsmrh. t.d. hafi sýnt það í störfum sínum að

hann vilji að embætti ríkissaksóknara sé sjálfstætt og að það taki sínar sjálfstæðu ákvarðanir, en hann sé ekki að hafa pólitísk áhrif á það að einu eða neinu leyti. Ég hygg að það megi segja að sú hefð hafi myndast í dómsmrn. að ráðherrarnir séu ekki að skipta sér af saksóknaranum þó svo að embættið sé veitt af ráðherranum.
    Engu að síður eru þarna tengsl á milli sem geta orkað tvímælis og leiðin til að lágmarka hættuna af þeim er þessi tillaga m.a. sem við erum hér með þingmenn Alþb.
    Ég endurtek það, virðulegi forseti, að þessi tillaga er fyrst og fremst flutt hér til þess að setja af stað umræður um stjórnkerfið í heild. Við teljum að það sé gallað að mörgu leyti, við teljum að í skjóli æviráðninga og sérréttinda geti þrifist spilling og við teljum að reynslan sýni að ráðherrar fari misjafnlega vel með veitingavald sitt. Ég hygg að það sé ekki mikið sagt og geta allir verið sammála mér um það orðalag út af fyrir sig að ráðherrar fari misjafnlega vel með veitingavald sitt. Af þeirri ástæðu er það sem við viljum setja þessi mál hér á dagskrá, viljum fá þingið til að ræða þessi mál alvarlega, fara yfir mál af þessu tagi eins og embætti ríkissaksóknara og eins og embætti hæstaréttadómara sem flutt er annað frv. um og er 8. mál á dagskrá þessa fundar.
    Virðulegi forseti. Ég legg svo til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.