Meðferð opinberra mála

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 14:57:23 (472)


[14:57]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ástæðan fyrir því að ég stend hér upp er einmitt það sem hv. 2. þm. Vestf. vék að í seinni hluta ræðu sinnar, þ.e. spurningin um sjálfstæði ríkissaksóknara og ég skildi 1. flm., 9. þm. Reykv., á þann veg að það væri vilji til þess að styrkja sem mest sjálfstæði ríkissaksóknara sem handhafa ákæruvaldsins og það er sú spurning sem vaknar sem vikið var að hér áðan, hvort það sé til þess fallið að styrkja sjálfstæði ríkissaksóknara að hafa hann skipaðan í embætti tímabundið, hvort það einmitt veikir ekki stöðu ríkissaksóknara gagnvart skipunarvaldinu, þ.e. dómsmrh., sem hann á að starfa sjálfstætt gagnvart. Það er þetta atriði sem ég vildi aðeins vekja máls á hér. Þessi spurning hlýtur að vakna þegar þetta frv. er íhugað, hvort því markmiði að styrkja embætti ríkissaksóknara í sessi sem sjálfstætt embætti, sé þjónað með því að hafa ríkissaksóknara skipaðan tímabundið.
    Mér finnst að það hljóti að koma til athugunar í hv. allshn. þegar hún tekur þetta mál til meðferðar, einmitt þessi þáttur málsins, staða embættisins gagnvart framkvæmdarvaldinu að öðru leyti. Ég er sammála því sem fram kom einnig hjá hv. 2. þm. Vestf. að hér er um handhafa framkvæmdarvalds að ræða. Þessi maður er skipaður af framkvæmdarvaldinu og hann á að tilheyra framkvæmdarvaldinu. Við höfum gengið í gegnum mikla breytingu á okkar dómstólakerfi, aðskilnað milli dómsvalds og framkvæmdarvalds, sem m.a. snerist um þetta að koma í veg fyrir að þarna væri ruglað reitum á milli dómstóla og framkvæmdarvaldsins og ég tel að það yrði skref aftur á bak miðað við þann aðskilnað ef það yrði farið að rugla reitum á milli embættis ríkissaksóknara og dómstólanna. Það þarf að vera skýrt þar á milli. Einnig finnst mér sjálfum að það sé ekki eðlilegt að þessi maður sé kjörinn hér á Alþingi eða Alþingi hafi atbeina að skipun ríkissaksóknara en hins vegar þarf hann að hafa öryggi í sínu starfi og sjálfstæði. Það er sem sagt þessi spurning hvort þessu markmiði sem mér heyrðist hv. 9. þm. Reykv. vera hlynntur að sjálfstæðið yrði sem mest, hvort það gæti veikt sjálfstæði ríkissaksóknara með því að skipa hann aðeins tímabundið.