Happdrætti Háskóla Íslands

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 15:43:10 (483)

[15:42]
     Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til laga um breytingu á lögum nr. 13/1973, um Happdrætti Háskóla Íslands, með síðari breytingum. 1. gr. frv. er svohljóðandi:
    ,,Síðasti málsliður e-liðar 1. gr. laganna orðast svo: Leyfishafi skal greiða 20% af nettóársarði til annarra skóla á háskólastigi í hlutfalli við fjölda nemenda í fullu námi á næstliðnu kennsluári og skal fénu varið til uppbyggingar skólanna.``
    2. gr. hljóðar svo:
    ,,Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994. Jafnframt fellur niður 2. tölul. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 48/1987.``
    Kjarni þessa máls er sá að Háskóli Íslands hefur lengi haft peningahappdrætti, en 20% af því sem hefur verið arður þess happdrættis hefur ekki runnið til skólamála. Hér legg ég til að því verði breytt að þessi 20% fari til skólamála, en að aðrir háskólar á Íslandi fái þá fjármuni til uppbyggingar, í samræmi við þann nemendafjölda sem þar er.
    Ég hygg að það hafi verið mikið gæfuspor þegar Háskóla Íslands var veitt leyfi til að reka peningahappdrætti, Ég hygg að um það sé ekki deilt. Og það er óhætt að fullyrða að staða háskólans í dag væri önnur og verri ef það hefði ekki verið gert. Nú hefur íslenska þjóðin veitt öðrum skólum rétt til að starfa á háskólastigi og við þá skóla eru bundnar miklar vonir. Aðeins með því að gefa þeim einnig tækifæri á sjálfstæðum tekjustofnum, eins og hér er um að ræða, er verið að gæta eðlilegs jafnræðis í leikreglum á milli þeirra sem starfa á háskólastigi.
    Ég vil undirstrika það að Háskóli Íslands er að sjálfsögðu háskóli okkar allra og alls góðs maklegur. En ég vil líka líta svo á að aðrir háskólar, hvort heldur þeir starfa norðan heiða eða vestan eða sunnan, séu líka háskólar okkar allra og að við þurfum að veita þeim þennan stuðning. Ég lít einnig svo á að menn kaupi ekki happdrættismiða Háskóla Íslands af þeirri ástæðu einni saman að þeir eigi gróðavon. Ég hygg að margir kaupi miða í Happdrætti Háskóla Íslands vegna þess að þeir vilja styðja gott málefni og að mínu viti yrðu velunnarar happrættisins fleiri ef Alþingi Íslendinga samþykkti þá tillögu sem hér er lögð fram. Ef velunnarar happdrættisins yrðu fleiri, þá yrðu tekjur happrættisins meiri og þess vegna yrði þetta í reynd að hluta til viðbót við þá fjármuni sem Happdrætti Háskólans hefur í dag.
    Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að endurflytja þá ræðu sem ég flutti í fyrra um þetta mál. Þar var vikið að svipuðu efni en tel eðlilegt að sú nefnd, hv. menntmn. sem ég legg til að fái þetta mál --- herra forseti. Ég held ég muni það rétt að þessu máli hafi verið vísað til menntmn. Annaðhvort er það allshn. eða menntmn. sem ber að vísa því til, en ég legg það í vald forseta að meta það. En ég vil ekki eyða hér löngum tíma í að ræða þetta og vísa þess vegna til þeirrar ræðu að öðru leyti sem ég flutti um þetta mál í fyrra.
    Mér er ljóst að þær hugmyndir eru uppi hjá sumum að það eigi að láta háskólann fá þessi 20% en dreifa því ekki til annarra skóla á háskólastigi. Vissulega eru rök fyrir því. Hins vegar hygg ég að það muni kalla á það að aðrir skólar munu þá leita eftir því að koma sér upp tekjustofnum og að mínu viti er betra að reyna að ná samkomulagi milli aðila um skiptingu þess fjármagns sem fæst með happdrættisstarfsemi í landinu heldur en að fjölga stöðugt aðilum sem leita út á þann markað. Ég vil því, með leyfi forseta, ljúka hér máli mínu án þess að leggja fram ákveðna tillögu um það hvort þetta fari til menntmn. eða allshn. en vísa því til forseta að úrskurða þar um.