Lögheimili

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 15:50:30 (485)

[15:50]
     Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að endurflytja hér frv. til laga um breytingar á lögum nr. 21 frá 5. maí 1990, um lögheimili.
    1. gr. frv. hljóðar svo:
  ,,Á eftir 3. mgr. 4. gr. laganna kemur ný svohljóðandi málsgrein:
     Manni, sem býr á dvalarheimili aldraðra eða í öðru húsnæði sem sérstaklega er ætlað öldruðum, skal heimilt að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi þar sem hann hafði fasta búsetu áður.``
    2. gr. Við 5. mgr. 4. gr. laganna (er verður 6. mgr.) bætist nýr málsliður svohljóðandi: Sama gildir um lögheimili manns skv. 4. mgr.
    3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Árið 1990 var sú breyting gerð að þeir sem dvöldu á dvalarheimilum fyrir aldraða eða í öðru húsnæði sem sérstaklega er ætlað öldruðum höfðu fram að þeim tíma, í sumum tilfellum takmarkaðan rétt eða engan rétt haft á að mega eiga þar lögheimili. Þeir urðu að eiga lögheimili annars staðar. Nú var þessu alveg snúið við og þeir skyldaðir til að eiga lögheimili á þessum stað. Það er einu sinni svo að að mínu viti er hér um mannréttindamál að ræða. Þetta er fyrst og fremst spurningin um það hvaða virðingu við berum fyrir öldruðum og hvaða virðingu við berum fyrir mannlegri reisn sem vill fá að ráða sumum hlutum í sínu umhverfi. Mér hefur verið bent á það að ef eitthvað er þá sé sú skilgreining sem hér er lagt til að upp verði tekin of þröng. Þess eru dæmi að hjón lendi í því að annað hjónanna verður það heilsulaust að það fer á dvalarheimili fyrir aldraða og á ekki afturkvæmt sakir þess að það er með langvinnandi sjúkdóm sem stöðugt þyngir á því tökin. Þessi hjón hafa ekki áhuga á skilnaði. Hinn aðilinn dvelur heima og meira að segja stundum færir sig á milli frá því sveitarfélagi sem hann var í til annars sveitarfélags.
    Samkvæmt núverandi lagasetningu eins og hún er þá væri það brot á sifjalögunum að aðilar ættu lögheimili sinn á hvorum staðnum. Þess vegna tel ég, ef eitthvað er, að þá ætti að rýmka þessa tillögu til lagabreytingar frekar en að þrengja hana.
    Ég hef horft á það að menn hafa verið fluttir af sínu lögheimili á þann stað sem þeir hafa þurft að dvelja á, jafnvel þó þeir hafi ekki dvalið þar nema vissan tíma af árinu og ætli svo að vera heima hinn tímann. Aðrir hafa hreinlega talið þetta svo stórt mál, og þeir eru þó nokkrir, sem neita að láta færa sig af þessari ástæðu. Ég get nefnt út af fyrir sig að lagalega séð liggur það ljóst fyrir að ef maður er leigjandi að ríkisjörð og er þar ábúandi þá tapar hann ábúðaréttinum um leið og hann er fluttur á elliheimili. Hann hefur ekki ábúðaréttinn áfram. Hann hefur þá ekki möguleika til að vera þar hálft árið ef gengið væri fast eftir lögunum eins og þau eru.
    Mér er ljóst að á þinglega vísu er þetta mjög lítið mál. Það kostar ekkert í útgjöldum fyrir ríkissjóð þó það verði samþykkt, ekki krónu, og e.t.v dregur það úr útgjöldum að samþykkja það. En það er stórt í augum einstaklinganna sem e.t.v. fyrr á ævinni hafa mátt ráða einhverju í sínu umhverfi en standa allt í einu frammi fyrir því að það á að fara að skikka þá til að færa sitt lögheimili. Þeir eiga kannski íbúð hér í bænum, eru þar með alla sína búslóð, sínar minningar, sínar myndir, mæta þar kannski af og til og hitta sína fjölskyldu þar, eiga kunningja á ýmsum stöðum um landið og úti í heimi líka sem hafa verið að senda þeim bréf stílað á þetta heimilisfang. Nú skal það afmáð og þeir komnir með sitt lögheimili inn á einhverja stofnun.
    Ég vænti þess að Alþingi Íslendinga geri sér grein fyrir því að það er mikið virðingarleysi gagnvart öldruðum að hafa það sem skyldu að þeir skuli eiga lögheimili á stofnunum fyrir aldraða ef þeir á annað borð þurfa að búa þar.
    Það er eins með þetta mál eins og hið fyrra sem ég talaði fyrir áðan, þetta mál er endurflutt, það var afgreitt úr nefnd í fyrra og ég vil þakka allshn. fyrir þá afgreiðslu. Mér gafst ekki tækifæri til að gera það í vor því að þingslitin brustu á með meiri hraða en menn höfðu átt von á.
    Ég vil vísa að öðru leyti til þeirrar framsögu sem ég hafði fyrir málinu þá og legg til að þessu máli verði vísað til hv. allshn. og vænti þess að það fái jákvæða meðferð eins og það fékk á liðnu þingi og vænti þess að þinglausnir beri ekki svo brátt að að það verði hægt að afgreiða málið á þessu þingi.