Umhverfisgjald

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 11:14:17 (492)


[11:14]
     Þuríður Backman :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 1. flm. þessarar tillögu fyrir þetta ágætismál sem hér er lagt fram um umhverfisgjald. Í morgun fór umhvn. Alþingis til að skoða Endurvinnsluna hf. Þar er tekið á móti og eytt að miklum hluta umbúðum utan af drykkjarföngum, annaðhvort til endurvinnslu eða eyðslu. Það hefur tekið fá ár fyrir landann að móttaka þessi skilaboð að þessar einnota umbúðir eru mengandi og safna þeim saman og koma þeim í förgun, að vísu gegn gjaldi en ég hugsa að langflestir mundu skila þessum umbúðum þrátt fyrir það að þeir fengju ekkert gjald fyrir. Það sýnir sig í mörgum sveitarfélögum þar sem íþróttafélög eða líknarfélög hafa safnað þessum dósum að fólk gefur þetta glaðlega í stað þess að menga umhverfið með þeim. Þetta var nú svolítill útúrdúr, þetta er ekki um loftmengun en mengandi efni eftir sem áður. Spilliefnamóttakan er dýr og við þurfum þar af leiðandi að hugsa fyrir því hvernig við ætlum að afla tekna til að eyða okkar úrgangi. Það er kannski ekki síður með hugarfarsbreytingu eða upplýsingum til okkar landsmanna um hvað séu mengandi efni og hvað ekki. Við höfum hent rafgeymum, batteríum og öðrum efnum á haugana eða í ruslið án þess að hafa í raun vitað um að það væri mengandi. Þannig að það er margt sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir og draga úr mengun án þess að það sé tekið gjald af því.
    En af því að hér er talað um loftmengun, þá veit ég ekki alveg hvernig á að útfæra það með koldíoxíðmengunina, hvort það á að vera gjaldtaka á bensín eða ákveðnar tegundir bíla, en þar kemur það líka til að það er hægt að breyta menguninni með hugarfarsbreytingu. Ég tek sem dæmi þetta litla landsvæði sem ég bý á austur á Egilsstöðum og í sveitarfélögunum þar í kring. Fyrir fáum árum var tekið að framleiða á vernduðum vinnustað skilti, falleg lítil skilti þar sem á stóð: Drepið á bílnum, hafið hann ekki í gangi. Þetta hefur sannarlega haft áhrif því maður sér varla bíla í lausagangi lengur. Það er einmitt þá, þegar bílarnir eru í lausagangi, sem mesta loftmengunin er þannig að þetta getur nú snúið að okkur líka að draga úr menguninni. En það er líka dýrt fyrir sveitarfélögin að eyða úrgangi og þau eru langflest að basla við það nú á þessum tíma að koma upp betri sorpmóttöku og förgun og er það þeim flestum ofviða. Þau hafa reynt að sameinast mörg hver um þetta stóra verkefni en mundu vilja gera miklu betur ef þau réðu við þetta stóra dæmi. Ég tel að í umhverfismálum þurfi að styðja sveitarfélögin til þess að þau geti ráðið við að taka á móti sorpi og fargað því.
    Loftmengun frá verksmiðjum hér á Íslandi er mest frá bræðslunum okkar, fiskiðnaðinum, og þar veit ég að er mikill áhugi á að setja upp hreinsibúnað en hann er feykilega dýr og þau ráða ekki við það nema með góðum stuðningi. Sá stuðningur gæti verið í formi þess að fyrirtækin fengju lán hjá bönkum til að koma þessu upp. En það væri okkur til skammar að fara að setja mengunargjald á þessar verksmiðjur þegar þeim á sama tíma er settur stóllinn fyrir dyrnar með að geta komið upp hreinsibúnaði. Þannig að að

þarf fyrst og fremst að gera sveitarfélögunum kleift að ráða við að eyða sorpi, verksmiðjunum kleift að koma upp hreinsibúnaði og koma síðan inn hugarfarsbreytingu hjá okkur Íslendingum til að ganga betur um jörðina.