Umhverfisgjald

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 11:31:04 (496)


[11:31]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt að útskýra þetta aðeins svo hæstv. umhvrh. vaði ekki reyk í þessum efnum um mína afstöðu eða skilning á þessum tveimur möguleikum, annars vegar umhverfisgjaldi og hins vegar leyfakerfinu. Það lýsir sér sjálft í þessari tillögu hvernig umhverfisgjaldið er í meginatriðum hugsað. Rekstur á að borga gjaldið, hann þarf sem sé að borga bæði gjaldið og fjárfestinguna til þess að fá lækkun á gjaldinu. Hin leiðin sem við getum notað og hefur verið notuð eins og t.d. með síldarverksmiðjur er að veita starfsleyfi og gefa mönnum aðlögunartíma til að uppfylla ákveðin skilyrði, þá er augljóslega um að ræða minni útgjöld fyrir viðkomandi rekstur og líklegra að hann geti uppfyllt þau þegar einungis þarf að leggja út fyrir fjárfestingunni en ekki eins og í hinni leiðinni að leggja út bæði fyrir fjárfestingunni og skattinum samtímis. Þetta er munurinn á þessum tveimur leiðum og gerir það að verkum að ég er engan veginn sannfærður um að það að taka upp umhverfisgjald sé betri leið heldur en að veita starfsleyfi eins og við höfum notað sem meginreglu í þessum efnum. Hins vegar finnst mér jafnsjálfsagt að láta athuga þessi mál og koma þá með tilllögu þannig að menn sjái það betur hvernig þeir hugsa sér að útfæra þetta.