Umhverfisgjald

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 11:32:45 (497)


[11:32]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil fyrst taka undir það sem er megininntak þess efnis sem hér er að álagning skatta er nauðsyn, það vita allir, það þarf að leggja á skatta og það er vel að á þessum degi hafi orðið samstaða á milli Sjálfstfl. og Alþfl. um þessa nauðsyn. Við gleðjumst að sjálfsögðu yfir því að þetta ber upp á sama dag og landsfundurinn hefst þannig að boðskapurinn hlýtur að fara inn í þá sali.

    Hins vegar vil ég líka tala fyrir því að viss markaðslögmál séu virt. Það sé ekki bara reynt að tala um fyrir mönnum heldur að markaðslögmálin séu virt. Þetta á sérstaklega við varðandi sölu á raforku í landinu.
    Fyrrv. hæstv. iðnrh. sem upplýst er að mun vera Jón Sigurðsson, þegar talað er um fyrrv. hæstv. iðnrh., hafði ákaflega lítinn skilning á þessu með markaðinn. Hann fyllti allt hér af rafmagni en þegar kom að því að selja það þá var bara talað við álfursta og þeir keyptu ekki þetta rafmagn. Þess vegna á þessi þjóð alveg óhemju auð í ónotuðu rafmagni sem lýtur markaðslögmálum eins og fleira. Það þarf að keppa við olíu og gas og niðurstaðan er sú að það tapar bæði í viðskiptunum við olíu og gasið. Það er vonlaust að koma hæstv. ríkisstjórn til þess að skilja að það er ekki nein prúðmannleg umræða um þetta sem skiptir máli, það sem skiptir máli er einfaldlega að verðið á raforkunni verði látið fara það langt niður að verksmiðjurnar sjái sér hag í því að kaupa þetta rafmagn. Og rafmagnið verður líka að fara það langt niður í verði að þeir sem nota gasið í dag sjái sér hag í því að kaupa rafmagnið. (Forseti hringir.) Og af því að hæstv. umhvrh. er maður mjög málsnjall vænti ég þess að hann reyni að færa það í tal við núv. hæstv. iðnrh. að hann láti markaðslögmálin gilda.