Umhverfisgjald

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 11:41:31 (499)


[11:41]
     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :

    Frú forseti. Ég vil þakka þingmönnum og hæstv. umhvrh. fyrir undirtektir við þessa tillögu og sérstaklega hæstv. umhvrh. fyrir hlý og góð orð í garð Kvennalistans og stefnu hans. Ég þarf svo sem ekki að hafa mörg orð fleiri. Hér hefur bæði verið skýrt út ýmislegt í hverju slíkt umhverfisgjald gæti falist og hefur hæstv. umhvrh. m.a. komið fram og gert það. Ég ætla ekki að fara að ræða hér um heilsukort og hvort heilsukort eru skattar eða gjöld. Hins vegar finnst mér mjög sérkennilegt þegar verið er að velta því fyrir sér hvað heitir skattur og hvað heitir gjöld. Mér finnst það ekki aðalatriðið, heldur er það aðalatriði hvernig þetta kemur niður, þessi gjöld eða skattar, og fyrir mér t.d. er ekkert stórmál hvort umhverfisgjald heitir umhverfisgjald eða umhverfisskattur ef menn kjósa svo. Aðalatriðið í mínum huga er að það fé sem innheimtist með þessum hætti sé ekki notað sem almennur tekjustofn fyrir ríki eða sveitarfélög heldur sé það gert í þágu umhverfisins. Ég get tekið sem dæmi að í Svíþjóð er t.d. lagt verulega hátt gjald á klórflúorkolefni og vetnisflúorkolefni. Það er t.d. sett upp í 600 kr. gjald á þessi efni til að reyna að koma í veg fyrir notkun og allt gjaldið er notað í þágu rannsókna til að reyna að finna önnur hættulaus eða mjög lítið skaðleg efni í sama tilgangi. Þannig er þetta umhverfisgjald oft notað. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að hafa breytilegt form á gjaldinu eftir því hvaða efni er um að ræða.
    Hv. 5. þm. Vestf. Kristinn H. Gunnarsson minntist á að það væri eðlilegra að banna mengun. Auðvitað er það hægt með ýmis efni og það hefur verið gert hér á landi með ágætisárangri stundum en því miður ekki alltaf. Það er bara ekki hægt að banna öll efni heldur verður að draga úr notkun hættulegra efna eða útblæstri mengandi efna eins og t.d. CO 2 eða koldíoxíðs, það er ekkert hægt að banna þann útblástur. Hann er óhjákvæmilegur. Þess vegna verður að beita mismunandi aðferðum eftir því hvaða efni er um að ræða og misháum gjöldum. Stundum er kannski ekki hægt að beita gjöldum en það er hægt að gera einhverjar ákveðnar kröfur. Ég tek dæmi um bíla, þar eru núna gerðar kröfur um hreinsunarbúnað á bílum sem fluttir eru inn til landsins. Það er hægt að hugsa sér ýmislegt þannig og þá smám saman minnkum við væntanlega koldíoxíðmengun frá bílum ef við gerum það að skilyrði að mengunarvarnaútbúnaður sé settur á bíla.
    Mér hefur t.d. fundist koma vel til greina að það verði reynt að koma til móts við bíleigendur sem vilja setja mengunarvarnaútbúnað á sína bíla eins og t.d. þá sem eiga eldri bíla. Það er nú einu sinni þannig að þó að hv. 5. þm. Vestf. hafi ekki mikla trú á markaðslögmálunum þá veltir fólk því fyrir sér hvað það fær í staðinn. Ef það getur t.d. minnkað sína mengun og fær einhverja peninga í staðinn þá mun það frekar gera það, jafnvel þó það kosti einhverju til sjálft.
    Það var minnst hér á hvort um væri að ræða skilagjald eða eitthvað annað. Mér finnst engu máli skipta hvort það heitir skattur, umhverfisgjald eða skilagjald. Það var minnst t.d. á skilagjald af bílum. Það var tekið upp á Alþingi fyrir þó nokkrum árum síðan, ég man ekki hvort það eru fjögur eða fimm ár síðan, það hlaut hins vegar ekki stuðning. Það var sá fyrrv. iðnrh. sem hér var minnst á áðan sem kom með þá tillögu en hún fékkst ekki afgreidd frá Alþingi. Það finnst mér t.d. mjög álitlegt og tel að skilagjald á bíla eigi að koma hér á.
    Hv. 3. þm. Reykn. talaði um að þessi tillaga væri sett fram e.t.v. sem liður í einhverju kapphlaupi eða til að vera á undan einhverjum öðrum. Ég vísa því á bug því í mínum huga skiptir það ekki nokkru máli hver kemur fyrstur með hugmyndina ef við ætlum að fara út í svoleiðis og þá held ég að við þurfum að leita jafnvel mjög langt aftur til þess að finna hver hefur fyrstur minnst á þetta. Ég treysti mér ekki til þess og er eiginlega viss um það að þó að þetta standi í stefnuskrá Kvennalistans sem gefin var út 1983 þá hafa örugglega aðrir komið með slíka hugmynd áður en það. Í mínum huga breytir það ekki nokkru hver er fyrstur og hverjir koma þar á eftir í því sambandi. Ég get auðvitað ekki verið annað en ánægð með að stefna ríkisstjórnarinnar sé með þeim hætti sem hér hefur verið lýst, bæði af hæstv. umhvrh. og hv. 3. þm. Reykn. Ég man ekki betur þó ég hafi ekki við höndina stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í upphafi kjörtímabilsins þá er eitthvað minnst á umhverfismálin þar þó ég muni ekki nákvæmlega hvort þar er minnst á umhverfisgjald eða umhverfisskatta. Þannig er þetta ekki ný hugmynd, ekki einu sinni á þessu kjörtímabili. Ég held að það breyti ekki nokkru, það gerir það a.m.k. ekki í mínum huga hver var fyrstur í þessu sambandi. Aðalatriðið er að við tökum eitthvað á þessum málum. Það er mjög brýnt. Ég fagna því auðvitað að það sé verið að gera allt sem hér hefur verið minnst á innan umhvrn. og það hlýtur að vera umhvrn. mikill styrkur ef Alþingi samþykkti tillögu sem þessa. En ráðuneytinu hlýtur að vera það mikill styrkur ef Alþingi samþykkir tillögu sem styður við bakið á því sem ráðuneytið er að vinna að ef það er í þá veru sem hæstv. umhvrh. sagði.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa tillögu, frú forseti --- jú, eitt í viðbót, ég gleymdi því sem hv. 3. þm. Reykn. minntist einnig á að það ætti að senda þessa tillögu til efh.- og viðskn. Sem 1. flm. þessa máls þá tel ég mjög eðlilegt að umhvn. sendi málið til efh.- og viðskn. til athugunar eins og oft hefur verið gert, þ.e. að þingmál hafi verið sent á milli nefnda til athugunar til þess að fleiri sjónarmið komi fram áður en endanlega er fjallað um málin í viðkomandi nefnd. Ég tel að það sé auðvitað alveg sjálfsagt að gera það en ítreka að ég tel að umhvn. eigi að fá þetta mál til meðferðar eins og gert var ráð fyrir á síðsta þingi.