Dýravernd

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 12:53:15 (510)


[12:53]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið gerð athugun á því ef lax væri tekinn úr slíku keri og honum sleppt, hvort atferli hans væri orðið á þann veg að hann hefði sjáanlega borið skaða á skynsemi sinni. Ég hygg að það væri nú fróðlegt að athuga það. En ég hef tekið eftir því aftur á móti, að það á sér stað meðferð á þessum fiskum sem ég tel vítaverða, eins og t.d. fréttir bera með sér nú, að lax er hafður í kerum án þess að honum sé gefið. Ég tel vítavert að geyma fiskinn lengi á þann hátt. Ég er ekki að tala um einn eða tvo daga, enda er það ekki það sem fréttir bera með sér, heldur mun lengri tíma.
    Ég vil ekki fara í neina þrætubókarlist í þessum efnum, en við þurfum að hafa einhverjar reglur um þessa hluti líka. Það held ég að sé alveg óumdeilanlegt.