Mat á umhverfisáhrifum

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 12:57:57 (512)

[12:57]
     Frsm. umhvn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, sem er frá umhvn. Ástæða þess að umhverfisnefnd ákvað að flytja þetta frv. eru mistök sem

urðu af hálfu nefndarinnar á síðasta þingi varðandi afgreiðslu á frv. til laga um umhverfismat, sem lagt var fyrir í upphafi 116. löggjafarþings af hálfu umhvrn. Í meðförum nefndarinnar á því frv. ákvað nefndin að breyta því verulega bæði uppsetningu og nokkrum ákvæðum laganna. Margir töldu breytingarnar það miklar að eðlilegast væri að flytja nýtt frv. um umhverfismat. Það var horfið frá því og þetta var lagt fram sem breytingar á lögunum sem samþykkt voru í vor því það féll burtu ein grein sem nauðsynlegt er að hafa í lögunum til þess að hægt sé að framkvæma þau. Það er grein sem var í upphaflega frv. Í upphaflega frv. var þetta 13. gr. og er hún hér flutt nákvæmlega orðrétt. Mistökin eru því fyrst og fremst umhvn. en ekki ráðuneytisins hvað varðar þessa einu grein. Þess vegna töldum við eðlilegt að umhvn. flytti þetta frv. til laga til þess að leiðrétta þessa handvömm okkar. 1. gr. þessa frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Á eftir 12. gr. kemur ný grein er orðast svo:
    Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda sem lög þessi taka til, hefja framkvæmdir eða staðfesta skipulagsáætlanir samkvæmt skipulagslögum, nr. 19 21. maí 1964, ásamt síðari breytingum, nema ákvæða laga þessara hafi verið gætt.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Ég vænti þess að Alþingi geti afgreitt þetta fljótt og vel. Ég legg til að lokinni þessari umræðu að frv. verði vísað til 2. umr. en tel óþarft að vísa því til umhvn. af fyrrgreindum ástæðum.