Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 13:52:53 (519)


[13:52]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði í sjálfu sér ekki að blanda mér í umræðu um þetta frv. sem hér liggur fyrir en taldi þó ástæðu til þess að gera það eftir að hér var lítillega minnst á brunatryggingar húseigna í og utan Reykjavíkur. Frv. eins og það liggur hérna fyrir finnst mér til verulegra bóta frá því í fyrra af þeirri einföldu ástæðu að það er búið að taka út úr því allt það sem við í stjórnarandstöðunni gerðum ágreining um í heilbr.- og trn. Það er ekki ríkisstjórninni að þakka eða andstæðum skoðunum í ríkisstjórnarflokkunum að frv. er hér núna í þessari mynd heldur fyrst og fremst stjórnarandstöðunni. Það tók í rauninni síðustu daga þingsins að fá því framgengt að frv. væri dregið til baka eins og það þá lá fyrir og komið er með það aftur inn á þetta þing. Við höfum greinilega haft erindi sem erfiði í stjórnarandstöðunni vegna þess að frv. er til bóta að því leytinu til að það eru engin sérstök ágreiningsmál í því eins og það liggur fyrir. Hins vegar eigum við eftir að sjá hvernig lagaákvæðin um brunatryggingar koma til með að líta út þegar þau frumvörp verða lögð fram. En eins og frv. var á síðasta þingi var réttarstaða bæði Reykjavíkurborgar sem sveitarfélags og Reykvíkinga almennt verulega skert og það var gert án þess að haft væri samráð við borgaryfirvöld í Reykjavík og auðvitað gegn miklum mótmælum frá þeim sem þingmenn Reykjavíkur í stjórnarliðinu gerðu þó ekki mikið með fyrr en eins og maður segir var nánast snúið upp á handlegginn á þeim.
    En þetta vildi ég láta koma fram hérna, forseti, en blanda mér ekki að öðru leyti í þessa umræðu þar sem ég sé ekki að hér sé í sjálfu sér ágreiningsmál á ferðinni. Ef eitthvað nýtt er hér á ferðinni sem ekki var efnislega í heilbrigðiskafla frv. í fyrra þá kemur það væntanlega fram í nefnd.