Almannatryggingar

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 14:02:39 (522)


[14:02]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hæstv. heilbr.- og trmrh. að síðan 1971 hafa verið gerðar milli 60 og 70 breytingar á þeirri almannatryggingalöggjöf sem við búum við í dag. Það hefur farið fram mikið nefndarstarf á vegum heilbrrn. og allra þeirra heilbr.- og trmrh. sem setið hafa í þeim stóli síðan 1978 ef ég man rétt. Allir hafa þeir gert tilraunir til þess að fá endurskoðaða almannaryggingalöggjöfina. Menn hafa því miður litlum árangri náð. Einna lengst gekk þetta þó í tíð hæstv. heilbr.- og trmrh. þáv., Guðmundar Bjarnasonar, er hann kynnti hér fyrir þinginu nýtt almannatryggingalagafrv. sem hafði það að meginmarkmiði að færa til innan almannatryggingalöggjafarinnar, frá þeim sem betur mega sín til hinna sem búa við erfiðari aðstæður. Það frv. gerði ekki ráð fyrir útgjaldaauka á sviði heilbrigðis- og tryggingamála heldur tilfærslu frá þeim sem betri aðstæður hafa til hinna sem búa við lakari kjör. Alþfl. sem þá sat í ríkisstjórn treysti sér ekki til þess að standa að þessu frv. á þeim tíma af þeirri ástæðu að þeir treystu sér ekki til að styðja tekjutengingu almannatryggingabóta og þá sérstaklega örorkulífeyris og ellilífeyris.
    Fyrsta verk fyrrv. heilbr.- og trmrh., Sighvatar Björgvinssonar, var það að tekjutengja bætur almannatrygginga, þ.e. ellilífeyri og örorkulífeyri án þess að neitt kæmi í staðinn, fyrst og fremst í þeim eina tilgangi að spara útgjöld en ekki að nýta þá peninga á öðrum stöðum innan almannatryggingalöggjafarinnar til þess að bæta stöðu þeirra sem búa við erfiðar aðstæður. Þetta kom því á óvart á sínum tíma. En það er full ástæða til þess að taka almannatryggingalöggjöfina eins og hún er nú til heildarendurskoðunar og það frv. sem hér er lagt fram er í sjálfu sér ágætis endurskoðun að því leyti til að það fer fram nokkur lagahreinsun með því að fá það samþykkt hér á þingi. Aftur á móti er um engar grundvallarbreytingar að ræða. Það er engin heildarendurskoðun að öðru leyti en því að það er bara verið að endurlögsetja þau lög sem menn nú þegar búa við.
    Hins vegar er mjög mikilvægt að skoða frv. um almannatryggingar og frv. um félagslega aðstoð í samhengi vegna þess að þetta er nátengt hvort öðru. Með þessum frumvörpum er verið að skilja að annars vegar almannatryggingaþátt málsins og svo hinn hlutann sem er þessi félagslega aðstoð. Og það hlýtur alltaf að myndast ákveðið grátt svæði á milli þess hvað menn telja félagslega aðstoð og hvað menn telja tryggingu.
    Þó frumvörpin bæði láti ekki mikið yfir sér þá er um grundvallarbreytingu að ræða þegar frumvörpin eru skoðuð í samhengi. Þessi grundvallarbreyting felst í því að eins og almannatryggingalöggjöfin er núna er gert ráð fyrir því að einstaklingarnir eigi rétt. Í sárafáum tilfellum er um heimildarbætur að ræða. Aftur á móti, ef þetta frv. og frv. um félagslegu aðstoðina verður að lögum, þá er rétturinn tryggður í almannatryggingalöggjöfinni en allar heimildirnar eru fengnar í frv. um félagslegu aðstoðina. Þegar búið er að færa yfir heimilisuppbót, sérstaka heimilisuppbót, aðrar uppbætur er beinlínis tengjast þeim greiðslum er ellilífeyrisþegar og öryrkjar hafa fengið sem fastar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og þeir hafa getað treyst á þá er það ekki lengur réttur heldur er þetta heimild til þess að greiða slíkar bætur þannig að þarna er auðvitað um grundvallarbreytingu að ræða. Og mér finnst að í meðförum hv. heilbr.- og trn. verði að skoða þennan þátt alveg sérstaklega með það í huga að ekki verði um neina skerðingu og ég trúi því að það sé ekki ætlun hæstv. heilbr.- og trmrh. að nota þetta tækifæri til þess að skerða kjör þessa hóps.
    Ég sakna þess úr frv. að það er ekki umsögn Hagsýslunnar um málið. Það er heldur ekki í frv. um félagslega aðstoð, það eru ekki umsagnir frá Hagsýslunni um það hvaða fjárhagslegu áhrif þetta frv. muni hafa.
    Í frumvörpunum sem lögð voru hér fyrir seinasta þing var áætlað að sparnaður af þessari aðgerð að skipta þarna á milli tryggingarþáttar málsins og hins félagslega þáttar yrði í kringum 70--80 millj. Það kom fram í umsögn frá Hagsýslu ríkisins að sparnaður af þessu gæti orðið þessi. Þá hefði auðvitað hvergi annars staðar verið hægt að ná sparnaðinum en með því að skerða heimildarbæturnar. Og því vil ég spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh.: Er það svo að menn hafi fallið frá því að spara með þessum frumvörpum og er það ekki alveg tryggt að það er ekki ætlunin að skerða rétt einstaklinganna með þessum frumvörpum verði þau að lögum?