Almannatryggingar

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 14:48:32 (530)


[14:48]
     Þuríður Backman :
    Virðulegi forseti. Ég tók hér upp eina grein áðan í máli mínu vegna bóta, tryggingabætur fyrir tannréttingar. Ég nefndi ekki þann sjálfsagða hlut að tannréttingar vegna meðfæddra galla og stórslysa falla ekki niður án þess að þessi slys séu nánar tilgreind, vegna þeirra er hægt að fá bætur frá Tryggingastofnuninni áfram. Það er, held ég, í huga okkar allra svo sjálfsagður réttur að þetta sé bætt að ég nefndi það ekki. En allt annað sem við höfum talað um sem venjulegar tannréttingar hjá unglingum, það fellur niður þegar það er ekki stórkostleg missmíði frá náttúrunnar hendi og við fæðumst ekki öll með þennan Colgate tanngarð sem margir hafa verið að sækjast eftir með tannréttingum og ég er ekki að réttlæta.
    Það er annað sem ég vil fá að bæta við því að ég spurði fyrrv. heilbrrh. líka um hvort ekki stæði til að koma upp svokölluðu grænu númeri hjá Tryggingastofnun ríkisins. Hér í 8. gr. er talað um aðalskrifstofu Tryggingastofnunarinnar og aðrar umboðsskrifstofur. En þó svo að það sé umboðsskrifstofa á staðnum, þá geta mál verið þannig að einstaklingur treystir sér ekki til þess að tala um sín mál við umboðsaðila og/eða treystir honum ekki fyrir sínum málum þannig að hann vill leita beint til Tryggingastofnunarinnar. Það þekkja allir sem hafa reynt að fara í gegnum það flæði upplýsinga hjá Tryggingastofnun að þar vísar maður á mann. Þetta getur tekið æðitíma og er mjög kostnaðarsamt fyrir þá sem þurfa að standa í einhverjum málaferlum eða um einhvern tíma að leita eftir bótum hjá Tryggingastofnun. Svar fyrrv. ráðherra var á þá leið að þetta teldi hann sanngirnismál en því miður hefði, þegar þessi fsp. kom fram, ekki verið gert ráð fyrir því í fjárlögum að það væri grænt símanúmer hjá Tryggingastofnun svo að e.t.v. er hægt

að bæta úr því núna að koma þessu á. Ég treysti því að þetta þyki nú það mikið sanngirnismál að þessi stofnun fái grænt símanúmer.