Félagsleg aðstoð

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 15:00:53 (533)

[15:00]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Í raun og sanni fór nokkur umræða fram um það frv. sem ég mun hér fara nokkrum orðum um rétt áðan undir formerkjum frv. um almannatryggingalög. En eins og ég vék að í framsögu minni um frv. til laga um almannatryggingar er hér um að ræða fylgifrv. þess frv. Eins og ég gat um einnig þá er ein helsta breytingin á almannatryggingalögum hér á landi vegna reglna EB á sviði almannatrygginga sú að tryggja þarf að í ákvæðum laga um almannatryggingar séu engin ákvæði um bætur sem í raun eru bætur af félagslegum toga.
    Eins og fyrr hefur verið rakið verður að flytja bætur almannatrygginga milli landa í samræmi við þann rétt sem hlutaðeigandi hefur áunnið sér í landinu. Þar sem kerfi félagslegrar aðstoðar hér á landi er skammt á veg komið hefur verið gripið til þess ráðs í gegnum tíðina að setja inn í almannatryggingalög ýmis ákvæði um aðstoð sem bera frekar keim félagslegrar aðstoðar heldur en almannatryggingar.
    Í frv. sem hér liggur fyrir hafa verið sett öll ákvæði almannatryggingalaga sem talið er að sé í raun ákveðin félagsleg aðstoð. Með þessu móti er tryggt að ekki mun þurfa að flytja á milli landa þessar bætur því bætur félagslegrar aðstoðar er ekki skylt að flytja milli landa líkt og bætur almannatrygginga. Þetta er veigaþungt atriði.
    Til að undirstrika að bætur þessar séu félagsleg aðstoð eru þær settar fram sem heimildarbætur og jafnframt ákveðið með reglugerð að tengja greiðslu bótanna við tekjur. Til að tryggja þetta enn frekar er það tekið skýrt fram að almenn skilyrði þessara bóta sé lögheimili á Íslandi eins og það er skilgreint í lögheimilislögum. Til bóta félagslegra aðstoðar teljast samkvæmt frv. mæðra- og feðralaun, umönnunarbætur, barnalífeyrir vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18--20 ára, endurhæfingarlífeyrir, makabætur, ekkju- og ekklabætur, ekkjulífeyrir, heimilisuppbót, sérstök heimilisuppbót, uppbætur vegna sérstakra aðstæðna, uppbót vegna reksturs bifreiðar og bifreiðakaupastyrkur.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. en minni á að það telst til svokallaðra EES-frumvarpa. Hér rétt áðan fór nokkur umræða fram um ákveðna þætti þessa frv. en ég legg til að að umræðu lokinni verði því vísað til 2. umr. og meðferðar heilbr.- og trn. Alþingis.