Félagsleg aðstoð

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 15:04:57 (535)


[15:04]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint fyrirspurn varðandi 7. gr. nefnds frv. um félagslega aðstoð, ekkjubætur. Það er vissulega rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að vakin hefur verið sérstök athygli á þessari misvísun sem ég hygg að liggi í þeirri staðreynd að þessi bótaflokkur tekur til þess tíma þegar samsetning atvinnulífsins var með eilítið öðrum hætti en áður var, eða þegar konan var heimavinnandi húsmóðir að mestu og fráfall maka leiddi til tekjutaps og tekjuhraps raunar. Í því ljósi hafa komið fram hugmyndir um það hversu virkur bótaflokkur þetta er orðinn í ljósi breyttra aðstæðna, þegar báðir aðilar, karlinn og konan, eru í mörgum tilfellum fyrirvinnur heimilanna. Nokkur athugun á greiðslu þessa bótaflokks sýnir, ef ég man rétt, að bótaþegar í einstaka sveitarfélögum, að vísu hefur ekki verið gerð heildstæð athugun á þessu, þá kemur í ljós að um 70% bótaþega eru útivinnandi. Það er þó meira í lægri aldurshópnum, þ.e. 50 og 60 ára heldur en þegar ofar dregur. En þessu vil ég svara eingöngu á þann veg að menn hafa auðvitað skoðað þetta nokkuð en staldra þá á hinn bóginn við þá spurningu hvort að þessi bótaflokkur sé í raun og sann ekki kominn dálítið langt frá upphaflegum markmiðum sínum sem var að bæta eða milda það tekjuhrap sem varð vegna fráfalls maka, heimavinnandi húsmóður.