Ratsjárstöðvar

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:17:14 (542)

[15:17]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það var þannig á sínum tíma þegar verið var að reka áróður fyrir þessum hernaðarframkvæmdum í landinu á árunum 1983--1985, að þá var mikið gert úr þessu borgaralega hlutverki ratsjárstöðvanna og þvílík hlunnindi það mundu verða fyrir íslenska sjómenn, veðurstofustarfsmenn og jafnvel bændur að njóta allra kostanna sem þessari starfsemi mundi fylgja. Það yrði hægt að fylgjast með skipaumferð, spá fyrir um veður og sjá regnskúri koma, jafnvel mætti ætla að hægt væri að auðvelda bændum heyskapinn með þessu tækniundri þegar ratsjárstöðvarnar segðu fyrir um úrkomuskýin. Það er afar athyglisvert í ljósi þessa málflutnings nú að hlýða næstum 10 árum síðar á svör utanrrh. og dæmigert fyrir aðferðafræðina alla í þessum málum, að efndirnar hafa orðið þær sem raun ber vitni.