Landkynning í Leifsstöð

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:29:18 (548)


[15:29]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr: Er eitthvað sem kemur í vegi fyrir að hægt sé að kynna land og þjóð með veggmyndum eða myndbandasýningum í Leifsstöð? Svarið er það að það er ekkert í vegi fyrir því að kynna land og þjóð með þessum hætti ef einhverjir aðilar hafa að því frumkvæði og undirbúa kynningu vel enda hafa tímabundnar kynningar farið fram í flugstöðinni þó ekki verði því haldið fram að tíminn hafi verið nýttur til fulls.
    Á þeim rúmum sex árum sem liðin eru frá vígslu flugstöðvarinnar þá hafa verið haldnar tvær stórar myndkynningar af sérstökum tilefnum. Hið fyrra var vegna samnorrænnar víkingahátíðar, Scandinavia Today, þegar Norðurlönd voru kynnt með veglegum hætti. Í tengslum við hana var komið fyrir stórum myndum í röð á standi eftir miðjum landgangi flugstöðvar og vöktu þær töluverða athygli ferðamanna. Hin kynningin var vegna ferðamálaárs Evrópu árið 1990. Veggmyndum var þá komið fyrir á veggjum ganga flugstöðvarinnar utan hins svokallaða ,,transit-svæðis``.
    Þess eru ekki dæmi að komið hafi verið upp kynningarbásum eða myndbönd notuð, flugstöðin hefur sjálf ekki hingað til haft frumkvæði að slíku kynningarátaki. Óskir hafa komið fram frá ýmsum aðilum um að efna til slíkrar kynningar. Yfirleitt hefur verið gert ráð fyrir þeim í bland við margvíslega auglýsingastarfsemi en þá hefur verið gert ráð fyrir því að auglýsingarnar ættu að vera ráðandi og í þeim tilvikum hafa kynningaraðilar undantekningarlaust ætlað sjálfum sér tekjur af auglýsingunum og þannig farið fram á það að flugstöðin veitti þessa þjónustu endurgjaldslaust.
    Auglýsingar í skjóli kynningar hafa hingað til ekki þótt nægilega góður kostur og þeim beiðnum hefur ýmsum verið hafnað. Almenna reglan er sú að veggir Leifsstöðvar eru ætlaðar fyrir auglýsingar því flugstöðin þarf á tekjum að halda. En þótt stöðin hafi ekki beinar tekjur af einhverri kynningu gæti hún til lengri tíma aukið tekjur sínar vegna slíkrar kynningar og hver hugmynd um kynningu hefur því verið metin sérstaklega með það í huga hvaða ávinningur gæti orðið af henni, hvort sem er fyrir flugstöðina sjálfa eða fyrir ferðaþjónustu og íslenskt atvinnu- og menningarlíf.
    Það er ekki alltaf auðvelt að meta ávinning af kynningu í krónum og aurum til skamms tíma. Hins vegar er hægt að leitast við að tryggja ávinning sem best með því að þeir aðilar sem best þekkja til beiti sér fyrir kynningu og hafi samráð sín í milli þegar það á við og helstu aðilar væru t.d. Ferðamálaráð, Útflutningsráð og Listasafn Íslands, auk þess sem fleiri aðilar gætu eflaust verið þátttakendur í því.
    Utanrrn. leitar stöðugt eftir því að finna nýjar leiðir til þess að kynna starfsemi flugvallarins og íslenskt atvinnu- og menningarlíf. Komi fram hugmyndir um kynningu verða þær að sjálfsögðu skoðaðar með jákvæðu hugarfari og velvilja í samráði við flugstöðvarstjóra og aðra aðila sem gætu þurft að koma að málinu.
    Ég kýs að bæta því við að undan því hefur verið kvartað að flugstöðin sé heldur ekki nýtt nægilega til auglýsingastarfsemi af hálfu íslenskra fyrirtækja og íslensks atvinnulífs svo sem venja er í flestum sambærilegum flugstöðvum vítt og breitt um heiminn.
    Á árinu 1993 eru einungis fimm aðilar sem hafa keypt auglýsingar í stöðinni. Þeir greiða ársfjórðungslega sem svarar 157 þús. ísl. kr. fyrir þessa kynningu en tekjur flugstöðvarinnar hafa orðið mestar af slíkri auglýsingastarfsemi árið 1990, 88.000 bandaríkjadalir sem jafngildir 4,9 millj. ísl. kr. á núverandi gengi. Þetta hefur dregist saman, kvartanir hafa heyrst um það að auglýsingaverðið sé of hátt af hálfu flugstöðvarinnar. Ég tel að hvort tveggja þurfi að auka, kynningarstarfsemi á vegum landkynningaraðila eða samtaka sem og auglýsingastarfsemi á vegum íslenskra fyrirtækja, og að efna þurfi þá til viðræðna og samninga um þá taxta sem að lágmarki verður að setja fram kröfu um að flugstöðin hafi fyrir slík viðskipti.