Landkynning í Leifsstöð

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:33:55 (549)

[15:33]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Það er greinilegt að þarna fer fram einhver auglýsingastarfsemi og þá kannski landkynning í framhaldi af því. Ég held hins vegar, eins og kom fram í hans máli, að það sé hægt að auka þetta verulega og skýringin á því að Ferðamálaráð hefur ekki talið sig hafa aðstöðu til þess eða ekki hafa raunverulega leyfi til þess séu fjárhagserfiðleikar vegna þess að fjárframlag til Ferðamálaráðs er mjög mikið skorið niður og það fær aldrei sína lögbundnu tekjustofna sem það á að fá samkvæmt lögum. Sá niðurskurður er á milli 700 og 800 millj. á síðustu sjö árum. Það er kannski skýringin á því ef þeir eiga að fara að greiða stórar upphæðir fyrir auglýsingarnar þarna þá sjái þeir sér það ekki fært. En þar sem ég heyri að hæstv. ráðherra er þess mjög fýsandi að þetta sé aukið þá vænti ég þess að hann muni áfram beita sér í þessu máli og það er kannski ekki úr vegi að hann hafi til þess liðsinni hæstv. samgrh. því það væri áreiðanlega heppilegt að skoðanir þeirra færu saman um það hvaða starfsemi fer fram í Leifsstöð.