Staða brotaþola í kynferðisbrotamálum

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:42:01 (553)

[15:42]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég fagna þessum svörum dómsmrh. sem mér fannst bera vott um að hann væri tilbúinn til að skoða þessi mál með jákvæðum huga og láta ekki þar við sitja heldur stefna að því að leggja fram á þessu þingi einhverja breytingu á lögum í þessa veru. Ég held einmitt að þetta sé mjög brýnt og fagna því að til standi að skipa nefnd til að vinna í málinu og gera tillögur til breytinga. Ég vona sannarlega að í þeirri nefnd sitji m.a. fulltrúar þeirra hópa eða þeirra samtaka sem hafa unnið sérstaklega að þessum málum og hafa mjög víðtæka reynslu og mjög mikla sögu að segja um hvernig þessum málum er nú háttað.
    Ráðherra minntist hér á nálgunarbann, hvort nefndin ætti að fjalla sérstaklega um það. Ég held að það sé alveg tímabært að setja eitthvað slíkt í lög eða taka á því máli vegna þess að eins og málum er háttað í dag, þá er það oft þannig, og því miður verð ég að segja, að menn sem koma t.d. út úr fangelsum á svokallaðri reynslulausn eiga að baki talsvert mikla ofbeldissögu, ekki síður á heimili heldur en annars staðar. Þegar þessir menn fara á reynslulausn út úr fangelsunum, þá fara konurnar þeirra í rauninni í fangavist í Kvennaathvarfið eða annars staðar. Og það eru fleiri en eitt og fleiri en tvö og fleiri en þrjú dæmi sem ég hef um þetta og það eru nýleg dæmi um menn, sem í raun og veru eru hættulegir ofbeldismenn. Og það er grátlegt til þess að vita að þegar þeir fara út, þá fara þær inn sem ekkert hafa af sér brotið.
    Ég heyrði líka í hádegisfréttum útvarpsins í dag að það stæði til að taka á nauðgun sem hugsanlega gæti komið til af gáleysi, þ.e. ekki af ásetningi og það finnst mér líka mál sem er tímabært að skoða.