Móttaka flóttamanna

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:54:41 (557)

[15:54]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er vissulega svo að það hefur verið ágalli á okkar löggjöf að ekki hefur verið unnt að skjóta málum eða úrskurðum til æðra stjórnvalds. Nú er ráðgert að á því verði bragarbót með því að Alþingi samþykki það frv. sem lagt hefur verið fram og gerir ráð fyrir því að frumúrskurðir verði kveðnir upp af útlendingaeftirliti en þeim megi síðan skjóta til dómsmrn. sem æðsta stjórnvalds.
    Ég hygg að með þeirri breytingu og þeim úrbótum, sem gerðar hafa verið og verið er að vinna að á framkvæmd þessara mála, getum við sagt að við stöndum í einu og öllu við alþjóðlegar skuldbindingar okkar í þessu efni. Og ég tek undir með hv. þm. að það er auðvitað mjög mikilvægt að við getum sýnt fram á að svo sé.